Héraðsdómur Norðurlands eystra þingfesti í gær sakamál Héraðssaksóknara gegn starfsmanni íþróttamiðstöðvar Giljaskóla á Akureyri. Er manninum þar gefið að sök líkamsárás í opinberu starfi og brot gegn barnaverndarlögum með því að hafa í lok apríl í fyrra neytt 11 ára gamlan dreng úr buxum og bol og slegið hann með flötum lófa í andlitið.
Giljaskóli er einn tíu grunnskóla Akureyrarbæjar, að meðtöldum skólunum í Hrísey og Grímsey, en Grímseyjarskóli er ekki starfandi skólaárið 2020-2021.
Sagði DV frá því í gær að væru menn sakfelldir fyrir brot í opinberu starfi mætti bæta allt að helming refsingarinnar við refsingu sem að hámarki má dæma fyrir brot. Líkamsárás í opinberu starfi varðar þannig allt að 9 mánaða fangelsi og barnaverndarlagabrotið sem maðurinn er ákærður fyrir varðar allt að þriggja ára fangelsi.
Í samtali skólastjórnenda við blaðamann DV vísuðu stjórnendur Giljaskóla á Akureyrarbæ, enda heyrir íþróttahús skólans beint undir bæinn. Halla Margrét Tryggvadóttir, sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Akureyrarbæjar sagði þá við DV að maðurinn hafi ekki starfað í íþróttamiðstöðinni í Giljaskóla frá vori 2019. Benti hún jafnframt á að starfsmenn Akureyrarbæjar hafi ekki haft vitneskju um að málið hafi leitt til dómsmáls. Þá sagði Halla að bænum væri óheimilt að tjá sig frekar um hvernig/hvort bærinn hafi brugðist við atvikinu, þar sem maðurinn væri ekki einn af æðstu stjórnendum bæjarins og vísaði Halla til upplýsingalaga í þeim efnum.
DV hefur nú heimildir fyrir því að maðurinn hafi í kjölfar meintrar árásar á 11 ára dreng ekki verið sagt upp, heldur verið fluttur á milli starfsstöðva innan bæjarins. Hann sé nú starfandi við húsvörslu á öðrum stað. Nafn mannsins er jafnframt enn að finna í opinberri símaskrá bæjarins. Herma heimildir DV að tilfærsla mannsins hafi valdið úlfúð og vakið undran meðal starfsmanna bæjarins. Vegur þar þyngst sú staðreynd að barnið sem maðurinn mun hafa ráðist á samkvæmt ákærunni sækir nú fundi og meðferð vegna atviksins í húsakynni bæjarins, þar sem maðurinn er nú starfandi.
Fyrirspurnum DV um málið til sviðsstjóra stjórnsýslusviðs var ekki svarað frekar en að ofan greinir.