Einni stærstu, árlegu mannréttindaherferð í heimi, Þitt nafn bjargar lífi, ég vegum Amnesty International var hleypt úr vör á dögunum. „Á hverju ári á aðventunni eru milljónir undirskrifta, bréfa og sms-ákalla send frá 150 löndum og landsvæðum um heim allan til stjórnvalda sem brjóta gróflega á mannréttindum borgara sinna. Íslendingar hafa ekki látið sitt eftir liggja í baráttunni fyrir betri heimi og á síðasta ári voru tæplega 90.000 undirskriftir sendar héðan þar sem skorað var á stjórnvöld að láta af mannréttindabrotum,“ segir í tilkynningu frá Amnesty um herferðina.
Í ár eru tíu áríðandi mál einstaklinga tekin fyrir í þitt nafn bjargar lífi. Hægt er að sjá nánari umfjöllun um málin á heimasíðu Amnesty. Eitt málana sem vakin er athygli á er mál blaðamannsins Khaled Drareni frá Alsír. Hann fjallaði um Hirak-mótmælahreyfinguna í Alsír en hreyfingin berst fyrir frelsi og mannréttindum. „Khaled var fyrsti óháði blaðamaðurinn til að greina frá vikulegum mótmælum í landinu og skýrði einnig frá lögregluofbeldi gegn mótmælendum þegar það átti sér stað.“
Þann 27. mars 2019 var Khaled handtekinn í kjölfar umfjöllunarinnar um mótmælin. „Hann var ákærður fyrir að hvetja til samkomu óvopnaðra mótmælenda en var í reynd eingöngu að sinna starfi sínu sem blaðamaður. Hann átti yfir höfði sér 10 ára fangelsisdóm en í september 2020 var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi.“
Amnesty lét gera myndband þar sem blaðamenn frá öllum heimshornum koma saman til að krefjast þess að Khaled verði látinn laus. Tveir íslenskir blaðamenn eru í hópi blaðamannanna, þau Helgi Seljan hjá RÚV og Björk Eiðsdóttir hjá Fréttablaðinu. „Það er ekkert minna en skandall,“ segir Helgi um fangelsisvist Khaled í myndbandinu sem sjá má í spilaranum hér fyrir neðan.