„Fyrirlitlegur málflutningur. Ég sá föður minn deyjandi og hann var ekki með neitt „kvef“, ekki frekar en hinir tólf sjúklingarnir sem dóu af veirunni á tveimur vikum. Það er ekkert „eðlilegt“ við það,“ segir Gauti Kristmannsson prófessor í færslu á Facebook þar sem hann deilir frétt Stundarinnar af streymisviðburði hópsins Út úr kófinu. Þar ræddu Sigríður Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Þorsteinn Sigurlaugsson hagfræðingur og Jón Ívar Einarsson, læknaprófessor við Harward-háskóla, við einn höfunda Barrington-skýrslunnar svonnefndu, en í henni eru færð rök fyrir sóttvarnaaðgerðum sem beinist að verndun viðkvæmra hópa og slökun á takmörkunum á athöfnum heilbrigðs fólks.
Faðir Gauta, Kristmann Eiðsson, kennari og sjónvarpsþýðandi, lést, 84 ára að aldri, í kjölfar þess að hann smitaðist af veirunni er hann lá á Landakoti.
Á steymisfundinum gerði Sigríður því skóna að of mikið væri gert úr Covid-dauðsföllunum á Landakoti. Hún sagði:
„Það kemur fólki rosalega á óvart að níræður einstaklingur hafi dáið úr kvefi eða inflúensu. Nú er ég ekki læknir og ég spyr þig Jón, það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt?“
Við þessum brást Gauti við með þessum hvassa hætti sem sjá má hér að ofan.
Jón Ívarsson sagði meðal annars er hann svaraði spurningu Sigríðar:
„Jú, við deyjum náttúrulega flest af því, sem er kölluð innan gæsalappa, lungnabólga. Oft er ekkert farið neitt nánar út í það, ekkert verið að athuga hvaða padda það var sem dró viðkomandi til dauða ef fólk er komið á þann aldur og í þær aðstæður. Það er ekki það sama ef níræður einstaklingur deyr, sem á kannski örfáa mánuði eftir og lifir kannski ekki við mikil lífsgæði, miðað við að einstaklingur á þrítugsaldri deyr. Það er ekki það sama.“