Fanginn sem fluttur var með hraði á sjúkrahús úr fangelsinu á Hólmsheiði heitir Sigurður Ragnar Kristinsson. Sigurður afplánar nú þriggja og hálfs árs fangelsisdóm vegna aðildar að Skáksambandsmálinu svokallaða. Í málinu gerði Sigurður ásamt tveim öðrum tilraun til þess að smygla fimm kílóum af amfetamíni til Íslands frá Spáni í janúar árið 2017. Fíkniefnafundur í húsakynnum Skáksambands Íslands kom lögreglu á sporið og fékk málið nafn sitt af því.
Þar áður hafði Sigurður hlotið 20 mánaða fangelsisdóm fyrir skattsvik í tengslum við rekstur fyrirtækisins SS verk. Sigurður hafði einnig verið talsvert í sviðsljósi í tengslum við fall eiginkonu Sigurðar, Sunnu Elvíru Þorkelsdóttur, fram af svölum heimilis hennar og Sigurðar á Spáni. Sunna lamaðist við fallið og sagðist ekki muna hvernig fallið hefði orsakast.
Í gærmorgun sagði Fréttablaðið frá því að maðurinn hafi verið fluttur úr fangelsi og á gjörgæslu. Í samtali við DV sagði maður sem tengdur er Sigurði en vildi ekki láta nafn síns getið að Sigurður hafi verið með 42°-43° stiga hita og hafi verið orðinn mjög veikur. Hann væri nú á gjörgæsludeild með sýkingu sem hefur dreift sér út um allan líkama, þar á meðal í hjarta og lungu. Sagði heimildarmaður DV að hann hefði fyrir víst að Sigurði hafi verið neitað um læknisaðstoð. Aðspurður um málið sagðist Páll Winkel fangelsismálastjóri ekki getað tjáð sig um málið en sagði það skýrt að fangar hefðu takmarkalaust aðgengi að læknisaðstoð óskuðu þeir eftir henni og að hann hefði ekki upplýsingar um að brotalöm hefði verið á því í fangelsum landsins.
Samkvæmt öruggum heimildum DV hafði Sigurður Ragnar smyglað róandi lyfjum sem algengt er að sprautað séu í æð inn í fangelsið, innvortis. Sigurður Ragnar hafði aðeins afplánað tvo daga af refsivist sinni þegar hann var fluttur á spítala. Við komu í fangelsið hafi Sigurður verið skoðaður af lækni líkt og reglur fangelsisins gera ráð fyrir, en fljótlega eftir það tók hann að veikjast. Herma heimildir DV að fíkniefnin hafi fundist hjá Sigurði áður en hann hafi verið fluttur á sjúkrahús, þó það liggi ekki fyrir hvenær í atburðarásinni það hafi verið. Óvíst er hvort veikindi Sigurðar tengjast smygli hans á fíkniefnunum innvortis í fangelsið. Herma heimildir að orsök sýkingar gætu verið aðrar. Sýkingar í lungum eru til dæmis ekki óþekktar meðal manna sem neytt hafa fíkniefna í æð.
Smygl innvortis er þekkt aðferð við að koma fíkniefnum í gegnum landamæri eða leitarstöðvar. Hætturnar við slíkt eru þó vel þekktar og algengt að menn veikist alvarlega eða látist ef pakkningar rofna og mikið magn efna leysist upp í meltingarfærum líkamans í einu. Þá er vert að nefna líkfundarmálið svokallaða, þar sem hinn 27 ára gamli Vaidas Jucevicius hafði smyglað talsverðu magni af amfetamíni innvortis en lést í íbúð í Furugrund í Kópavogi á meðan hann beið eftir að þau skiluðu sér út í gegnum meltingarveginn. Hafði hann þá kastað upp blóði og verið mjög veikur áður en hann lést. Við krufningu kom í ljós að pakkningar hefðu ekki rofnað, heldur hafði Vaidas látist af stíflu í smágörnum sem orsakaðist af fíkniefnapakkningunum.
Aðstandendur mannsins auk Guðmundar Inga Þóroddssonar, formanns Afstöðu félags fanga, hafa kallað eftir að rannsókn fari fram á málinu og viðbrögðum Fangelsismálastofnunar við veikindum Sigurðar. Í Fréttablaðinu í morgun sagði enn fremur að dómsmálaráðuneytið væri nú með málið til skoðunar og hefði kallað eftir upplýsingum frá Fangelsismálastofnun um atburðarásina. Þar sagði jafnframt að maðurinn hafi verið vakin úr svæfingu á miðvikudag og sýndi nú hægfara batamerki.
Aðspurður um málið sagðist Páll Winkel ekki geta tjáð sig um málefni einstaka fanga. Þrátt fyrir tilraunir blaðamanns náðist ekki í Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur við vinnslu fréttarinnar.