Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að fanganum hafi verið haldið sofandi í öndunarvél í tíu daga en hafi verið vakinn á miðvikudaginn og sýni nú hægfara batamerki.
Blaðið hefur eftir Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra, að ráðuneyti hennar sé kunnugt um málið og hafi óskað eftir upplýsingum um það frá fangelsismálayfirvöldum.
Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálstofnunar, getur ekki rætt málefni einstakra fanga en sagði að ef fangi óski eftir heilbrigðisþjónustu sé hún undantekningarlaust veitt.
„Við synjum föngum ekki um heilbrigðisþjónustu,“ er haft eftir Páli sem sagði einnig að fangar fái heilbrigðisþjónustu við upphaf afplánunar og að ef fangi veikist í afplánun fái hann undantekningarlaust heilbrigðisþjónustu, hvort sem það er að eigin ósk eða frumkvæði starfsfólks fangelsisins.