Leiðari Morgunblaðsins í dag fjallar um úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Leiðarinn hefur verið harðlega gagnrýndur á samfélagsmiðlum, en þar er sagt að úrslit kosninganna liggi ekki fyrir og að ásakanir Trump um stórfellt kosningasvindl séu eðlilegar. Flestir stærstu fjölmiðla Bandaríkjanna, og heims, hafa lýst Joe Biden og Kamölu Harris sem sigurvegara kosninganna. Í leiðaranum segir:
„Margir undrast að Trump forseti skuli ekki viðurkenna möglunarlaust úrslitin í forsetakosningunum. Jafnvel á Íslandi og jafnvel utan hinnar veikburða fréttastofu ríkisins er þetta apað eftir. Enginn þessara fréttamanna veit þó til að úrslit þessara kosninga liggi fyrir. Láta má vera að fávísir fréttamenn hér gefi sér að kjörstjórnir úr einstökum kjörstöðum (sveitarfélögum eða kjördæmum) gefi í lok talningar fyrirliggjandi úrslit og svo berist mönnum kjörbréf í framhaldinu.“
Því er haldið fram að fjöldi látinna einstaklinga hafi kosið í kosningunum, einnig er vitnað í lögfræðiteymi Trump sem vilja meina að í sumum kjördæmum hafi kosningaþátttaka verið 350% meiri en voru á kjörskrá. Fullyrðingar sem þessar hafa verið harðlega gagnrýndar í fjölmiðlum í Bandaríkjunum, enda hafa sérfræðingar bent á að kosningarnar hafi verið þær öruggustu í sögu Bandaríkjanna.
„Étið hefur verið eftir í fjölmiðlum sem hafa hatast við Trump frá fyrsta degi að „engar sannanir“ séu um kosningasvik. Það eru skrítnar staðhæfingar. Ásakanir fjölda vitna liggja sannarlega fyrir og eru studdar eiðsvörnum yfirlýsingum þeirra og geta varðað fangelsi ef rangar reynast. Birt hafa verið nöfn og fjöldi mynda af „kjósendum“ sem kusu glaðbeittir nú þótt þeir geispuðu golunni fyrir löngu. Það er reyndar alkunna að látnir menn kjósi í Bandaríkjunum, þótt úr hafi dregið. Þá komi hópar yfir landamærin frá Kanada til að kjósa og námsmenn kjósi bæði í háskólabæjunum og heima hjá sér. Þetta er allt þekkt. Og menn eru ákærðir og eftir atvikum dæmdir fyrir kosningasvik í allmiklum mæli. Nú er spursmálið þetta: Var í þessu tilviki um skipuleg kosningasvik í stórum stíl að ræða af hálfu demókrata?“
Líkt og áður segir hefur leiðarinn verið harðlega gagnrýndur, meðal annars af Þórði Snæ Júlíussyni, ritstjóra Kjarnans. Á Twitter-síðu sinni hefur hann birt mynd af leiðaranum og umdeildum lögfræðingi Trump, Rudy Giuliani, sem hélt blaðamannafund í gær. Þórður segir að blaðamannafundur Rudy hafi birst í „leiðaraformi“ í Morgunblaðinu í dag.
Blaðamannafundurinn hans Rudy í gær birtist í leiðaraformi í Morgunblaðinu í dag. pic.twitter.com/EleVBV7yN5
— Þórður S. Júlíusson (@thordursnaer) November 20, 2020
Fyrir neðan tíst Þórðar létu margir ummæli falla um málið, flest þeirra voru Morgunblaðinu ekki í vil.
100 milljónir. Rétt tæpar.
— Halldór Auðar Svansson (@tharfagreinir) November 20, 2020
Dapurlegt – en ekkert nýtt við framkvæmd kosninga í USA. Algengt er að milljónir atkvæða séu ógilduð þegar útséð er um að það hafi ekki áhrif á úrslitin. Líka væri hægt að finna dapurleg dæmi í þeim ríkjum sem Trump vann.
— Ásgeir Guðbjörn Överby (@GuOverby) November 20, 2020
Og hvað svo? Þegar sannanirnar aldrei koma … bara halda áfram í samsærisgírnum og tala um Soros-Illuminati vondu kallana sem öllu stjórna? Getur nebblega verið fjandi erfitt að koma upp úr samsærisbönkernum í dagsbirtuna.
— Einar Fridriksson (@EinarKF) November 20, 2020
Vá hvað þetta er sorglegur leiðari. Hvernig var leiðarinn eftir kosningarnar 2016? Engar staðfastar sannanir og Mogginn hljómar eins og Trump. Hér er afstaðan skýr. Álit mitt á mvl hefur snarminnkað og ég hélt það kæmist ekki neðar 😡
— Doddi Jonsson (@doddijonsson) November 20, 2020