Á morgun, þann 3. nóvember, tekur ný reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir á skólastarfi gildi. Hún var gefin út seint í gærkvöldi og gildir um allt skólastarf á landinu og tekur auk þess til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþrótta- og tómstundastarfs barna og ungmenna. DV skýrði frá þessu í gærkvöldi.
Morgunblaðið hefur eftir Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, að víðtækt samráð hafi verið haft við skólasamfélagið við undirbúning reglugerðarinnar.
„Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á að forgangsraða í þágu menntunar, við viljum auka sóttvarnir í skólunum, en um leið tryggja aðgengi barna og ungs fólks að menntun,“
er haft eftir Lilju sem sagði að í löndum eins og Bretlandi og Frakklandi hafi verið sleginn hringur um skólastarf þrátt fyrir að þar gildi nánast útgöngubann. Hér á landi sé einnig sleginn hringur um skólastarf.
„Það er mitt hlutverk að tryggja menntun í landinu og svona gerum við það best,“
sagði hún.