Afar vetrarlegt er orðið í borginni eftir að snjó tók að falla seint í kvöld. Fimbulkuldinn sem tók á móti borgarbúum í morgun er þó horfinn og sýnir nú hitamælir blaðamanns sléttar núll gráður. Nokkur hálka myndaðist í borginni við þessi skilyrði, en búast má við að snjórinn verði að mestu horfinn fyrir morguntraffíkina í fyrramálið.
Samkvæmt Veðurstofunni hlýnar í kvöld og í nótt og má því búast við að gráir malbikstónar taki á ný við af jólalitunum eftir því sem nóttinni líður. Á morgun spáir hita um og yfir frostmarki um allt land og þurrt alls staðar nema á Suðausturlandi þar sem á að rigna nokkuð hressilega.
Tilbreytingalaust veður á föstudagskvöldið og fram á laugardag nema í Öræfasveit þar sem búast má við duglegum hviðum af jökli.
Áhugamenn um kalda vetra geta svo tekið gleði sína á ný á sunnudag þegar herðir nokkuð hressilega á frosti um allt land. Spáir Veðurstofan fjögurra stiga gaddi í borginni þá og öðru eins meðfram ströndinni. Harðari frosti í innsveitum og auðvitað á hálendinu.
Helst það veður, kalt og stillt, eitthvað fram í vikuna.