Vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar hefur verklagi verið breytt á heilsugæslustöðvum þannig að nú er ekki eins auðvelt að bóka tíma hjá heimilislæknum og áður. Nú er fólki bent á að hringja á heilsugæslustöðina sína og ræða við lækni eða hjúkrunarfræðing sem meta stöðuna og bóka tíma ef þörf þykir á.
Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og hefur eftir Óskari Reykdalssyni, forstjóra Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, að þetta sé aðallega gert til að fækka fólki á biðstofunum. „Þetta verklag hefur reynst vel. Stundum er nauðsynlegt að fólk komi og hitti lækni eða hjúkrunarfræðing en alls ekki alltaf. Sú leið sem við unnum eftir áður er ekkert endilega sú besta,“ er haft eftir Óskari.
Hann nefndi sem dæmi að ef verið er að endurnýja lyfseðla eða vottorð þurfi fólk yfirleitt ekki að mæta á heilsugæslustöð heldur sé hægt að endurnýja í gegnum síma eða Heilsuveru. Hann sagði að mikil aukning hafi orðið á notkun Heilsuveru.is og séu heimsóknir og flettingar nú orðnar rúmlega ein milljón. Einnig hefur endurnýjunum á lyfseðlum gegnum vefinn fjölgað og í fyrra voru þær fleiri en endurnýjanir í gegnum síma.
Óskar sagði að ekki hafi borið á óöryggi hjá fólki þrátt fyrir breytt verklag en því miður hafi borið á því að fólk leiti síður eða seinna til læknis nú en áður en heimsfaraldurinn skall á. „Við höfum fengið eitt og eitt dæmi um að fólk hafi beðið of lengi með að leita til læknis og við höfum líka heyrt um það erlendis en við vitum í sjálfu sér ekki hvort það tengist faraldrinum beint en við höfum áhyggjur af því og erum búin að hafa þær allan tímann,“ sagði hann.