Gengi Icelandair er í dag 1,39 og hefur verið um 1,4 síðustu daga. Það er 39% hækkun frá því hlutir í félaginu voru boðnir út í september á þessu ári. DV fjallaði um útboðið á sínum tíma. Kom þar fram að boðnir væru út hlutir að verðmæti 20 milljarða á genginu einn. Hlutafjárútboðið þótti ganga einkar vel, en yfir níu þúsund einstaklingar og fyrirtæki tóku þátt fyrir samtals 37,3 milljarða. Icelandair hafnaði tilboði Michelle Ballarin að fjárhæð 7 milljarða og eftir stóðu því 30,3 milljarðar. Ballarin keypti stóran bút úr þrotabúi WOWair á sínum tíma, meðal annars vörumerkið og vefsíðuna. Fjöldi seldra hluta í útboði Icelandair voru 23 milljarðar talsins.
Þeir 23 milljarðar sem seldir voru á genginu einn eru því orðnir, miðað við sölugengið 1,39, að um 31 milljarði og hefur verðmæti þeirra hækkað um svo til slétta 8.970 milljónir á um tveimur mánuðum.
Þannig er hver þúsund kall sem settur var í hlutafjárútboð Icelandair orðinn að um 1.400 kalli í dag.
Mikil viðskipti hafa átt sér stað með hluti í Icelandair. Í dag, þegar þetta er skrifað, hafa 226 viðskipti átt sér stað, samtals að verðmæti 531 milljóna. Viðbúið er að sú tala hækki talsvert í dag. Lægsta verðið er 1,35 og það hæsta 1,39.
Undanfarin mánuð eða svo hefur gengið verið undir útboðsgenginu einn, eða um 0,9 og lægst farið í 0,89 í byrjun nóvember. Á mánudaginn síðasta, 9. nóvember, sem var jafnframt sami dagur og mjög jákvæðar fregnir bárust af þróun bóluefnis Pfizer, hækkaði gengi hlutabréfanna úr 1,1 í 1,37 á einum degi. Hefur gengi þess ekki verið jafn hátt frá því í ágúst á þessu ári.