Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Guðmundi Inga að við stöndum okkur vel hvað varðar endurvinnslu annarra drykkjarvöruumbúða en ekki hvað varðar gler. „Ég er nú með í bígerð lagafrumvarp þar sem við erum að gera Endurvinnslunni kleift að fara í endurvinnslu á gleri. Það þarf að hækka umsýslugjald til þeirra til að það sé hægt. Ég hyggst ná þeim markmiðum sem við höfum sett okkur,“ sagði hann.
Í umfjöllun um úrgang og endurvinnslu að undanförnu hefur komið fram að stór hluti plasts er ekki endurunninn heldur sendur til Svíþjóðar þar sem plastið er brennt. „Sumt plast er óendurvinnanlegt og þá er betra að brenna það en að urða, en það mikilvægasta er að það sem raunverulega getur farið í endurvinnslu af plasti fari í endurvinnslu. Annað er óásættanlegt,“ sagði Guðmundur Ingi.