Dómur féll í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir manni sem ákærður var fyrir ræktun og vörslu á maríhúana. Fundust plönturnar eftir að lögreglu barst nafnlaus ábending um ræktunina. Þegar lögregla knúði á dyr hleypti maðurinn lögreglumönnunum inn og framvísaði kannabisplöntunum. Handtók lögregla manninn og haldlagði plönturnar ásamt búnaði sem þarf til þess að rækta þær. Í ákæru yfir manninum kom fram að efnin væru um 2 kíló, en í dóminum stendur að um sé að ræða um 1,5 kíló. Við meðferð málsins
Maðurinn játaði að hafa ræktað plönturnar, en neitaði sök í málinu og bar fyrir sig stjórnarskrárvörðum rétti sínum til þess að rækta kannabis á heimili sínu til einkaneyslu. Kvað hann kannabisefnin hafa góð áhrif á veikindi sín umfram þau lyf sem honum stæði til boða.
Sagði maðurinn að réttur sinn til að rækta kannabisefni á heimili sínu til einkanota væri verndaður af 71. og 75. gr. stjórnarskrárinnar. Er þar um að ræða ákvæði um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu annars vegar, og hins vegar atvinnufrelsisákvæði hennar.
Dómarinn virðist þó ekki hafa keypt þessa túlkun á stjórnarskránni. Í dómnum segir að það sé mat dómsins að hvorugt ákvæðið verndi rétt mannsins til að rækta kannabis, sem sé eftir sem áður ólöglegt á íslensku yfirráðasvæði.
Að teknu tilliti til þess að maðurinn hafi ekki áður gerst brotlegur við lög var honum gert að sæta skilorðsbundinnar fangelsisrefsingar til tveggja ára. Þá voru gerðar upptækar kannabisplöntur, kannabisefnin og búnaðurinn til kannabisræktunar og manninum gert að greiða sakarkostnað og málsvarnarlaun, samanlagt um 1,3 milljónir.