Sigríður Á. Andersen, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi dómsmálaráðherra, er meðal þeirra sem boðar til COVID-fjarfundar á laugardaginn kl. 15.
Þar verður tekist á við spurninguna hvort hægt sé að vernda viðkvæma fyrir COVID-19 og sleppa þeim hörðu takmörkunum sem hafa verið í gildi.
Jón Ívar Einarsson, prófessor í Harward, og Þorsteinn Sigurlaugsson hagfræðingur standa einnig að fundinum en þar verður rætt við Martin Kulldorff, sem er einn þriggja höfunda Barrington yfirlýsingarinnar en með henni færa sérfræðingar rök fyrir hnitmiðuðum sóttvarnaaðgerðum fremur en almennum lokunum.
Í fréttatilkynningu um fundinn segir:
„Er markviss vernd viðkvæmra hópa möguleg?
Afleiðingar núverandi sóttvarnaraðgerða eru geigvænlegar og valda tjóni á öllum sviðum samfélagsins. Helsti valkosturinn við núverandi aðgerðir er að beita markvissri vernd viðkvæmra hópa í stað lokana og hafta. Helstu hvatamenn þessarar stefnu eru Dr. Martin Kulldorff prófessor við Harvard Medical School, Dr. Sunetra Gupta, prófessor við Oxfordháskóla og Dr. Jay Bhattacharya, prófessor við Stanford-háskóla.
En hvað felst í markvissri vernd? Hvað vinnst? Hversu auðveld er stefnan í framkvæmd? Hvaða áhrif hafa væntingar um bóluefni á næstu mánuðum?
Laugardaginn 14. nóvember kl. 15 verður opinn fundur með Dr. Martin Kulldorff þar sem leitað verður svara við þessum spurningum. Þátttakendur í fundinum auk Dr. Kulldorffs eru Dr. Jón Ívar Einarsson, prófessor við Harvard Medical School, Sigríður Andersen alþingismaður og Þorsteinn Siglaugsson hagfræðingur. Um veffund er að ræða. Slóð: https://www.facebook.com/events/303723564143906/
Að fundinum stendur hópur fólks úr ýmsum geirum samfélagsins sem hyggst beita sér fyrir opnari umræðu um sóttvarnir, undir yfirskriftinni Út úr kófinu!“
Fundurinn fer fram hér