Göngugarpar sem gengu úti við Gróttu á Seltjarnarnesi ráku upp stór augu í gær þegar minkur sást hlaupa þar yfir götu og stefna á Bygggarða. Minkar hafa mætt ofsóknum á Norðurlöndum eftir að upp komst um stökkbreytta kórónaveiru í þeim í Danmörku en í kjölfarið fyrirskipaði forsætisráðherra Dana að öllum minkum þar í landi yrði lógað. Fyrirskipunin stóðst þó ekki lög og er málið í pattstöðu en ótti er við að stökkbreytta veiran geti borist í menn og þar með gert bóluefnið sem von er á óvirkt.
Ekki er grunur um kórónaveirusmit í minkabúum hérlendis en mögulegt er að strokuminkurinn hafi heyrt af ofsóknunum og stungið af.
Níu minkabú eru á Íslandi og öll úti á landi svo undarlegt þykir að sjá mink úti á Seltjarnarnesi en þó ekki óþekkt. Síðasta vetur höfðu nokkrir minkar hreiðrað um sig í grjótinu við Reykjavíkurhöfn.