Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. „Það væri ansi heimskulegt á þessu augnabliki að létta á þessum aðgerðum. Eitt af því sem við erum búin að læra á síðustu mánuðum er hversu hratt þetta getur blossað upp. Ég held því fram að við eigum að setja okkur markmið og það markmið sem ég vil setja efst á forgangslista er að sjá til þess að börn geti farið í skóla og verið í skóla á eðlilegan máta,“ er haft eftir Kára.
Hann sagðist vilja sjá innan við eitt smit á dag í tvær áður en hann færi að velta fyrir sér að slaka á aðgerðum og að mikilvægt sé að tryggja að börn og unglingar geti stundað nám sitt, þau séu framtíð íslensks samfélags. Stóra markmiðið sé að tryggja að unga fólkið komi ósnert út úr faraldrinum.
Morgunblaðið hefur eftir Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði, að útlitið sé gott hér en í öðrum löndum sé faraldurinn í örum vexti, til dæmis á meginlandi Evrópu. „Það er ekkert öruggt og smitin þurfa að fara eitthvað almennilega niður svo að maður geti verið rólegur með þetta,“ er haft eftir honum.