„Á meðan vínbúðarstarfsmenn kúra sig undir rándýrum teppum keypt fyrir okkar skattfé þá er ekki hægt að veita almennilega heilbrigðisþjónustu í heimsfaraldri vegna fjársveltis og manneklu,“ segir Anna Margrét Pálsdóttir hjúkrunarfræðingur á Facebook-síðu sinni.
Nýlega fengu allir starfsmenn ÁTVR veglegan gjafapakka. Samkvæmt svari frá ÁTRV til DV innihélt pakkinn eftirfarandi: „Pakkinn innihélt ullarteppi, ullarsokka, ilmkerti, hitapúða fyrir herðar, andlitsmaska, handáburð, olíu, varasalva og súkkulaði. Allt starfsfólk sem var í vinnu þegar pakkinn var afhentur fékk slíka gjöf,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, en verðmæti pakkans er 36 þúsund krónur.
Eiginmaður Önnu er starfsmaður ÁTVR en hún skrifaði eftirfarandi pistil um starfsmannagjöfina hans fyrir stuttu:
„Hjalti fékk í kvöld fallegan og veglegan gjafakassa frá vinnunni sinni, ÁTVR. ÁTVR er líklega það apparat sem er mikilvægast að halda opnu í gegnum faraldurinn, þaðan fær jú ríkið mest af sínum tekjum. Ef það þarf að loka vínbúðunum, þá fyrst kemur kreppa. Augljóslega. Það er því gífurlegt álag á starfsmönnum og þeir þurfa að vera á tánum allann daginn og passa upp á sóttvarnir. Í kassanum var allt sem þarf til að dekra við sig eftir erfiðan dag í vínbúðinni.Ullarteppi frá Geysi að verðmæti 18.900 – Til að kúra sig undir.Ullarsokkar frá Geysi – 3200 kr – fyrir kaldar og þreyttar táslur.Kerti nr 21 frá ILM – 6900kr – Fátt meira róandi en kertaljós.Snyrtivörutaska frá BlueLagoon – líklega ekki metin til fjár – Til að maska sig upp og hressa upp á þreytta húð.ChitoCare handáburður – 3350kr – til að smyrja á sprittsprungnar hendur.Grjónapoki til að hita – fyrir stífar og bugaðar axlir.Stór plata af Omnom súkkulaði – Ekki hægt að eiga kósý dekurkvöld án þess að japla á íslensku súkkulaði.
Þessu fylgdi kort með kveðju og þökkum fyrir að standa sig vel á þessum óvenjulegu tímum.Ég er alls ekki bitur eða abbó eða neitt en óska þess að ég væri líka í framlínustarfi.“