Pattstaða virðist vera komin upp í tengslum við niðurrif brunarústa hússins við Bræðraborgarstíg 1 í miðbæ Reykjavíkur. Þrír létust og fleiri slösuðust þegar húsið brann í lok júní. Samkvæmt rannsókn lögreglu, slökkviliðs og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er orsök brunans rakin til íkveikju og hefur Marek Moszczynski, 63 ára gamall karlmaður, verið ákærður fyrir íkveikjuna, manndráp og manndrápstilraunir. Marek er í ákærunni sagður hafa kveikt eld meðal annars undir stiga sem lá upp á 3. hæð hússins. Eldurinn breiddist hratt út og var húsið alelda þegar slökkvistarf hófst.
Eigandi hússins er fyrirtækið HD verk ehf., sem er í eigu Kristins Jóns Gíslasonar. Samkvæmt heimildum DV hefur hann nú krafist greiðslu bóta vegna niðurrifs hússins og endurbyggingu þess. Bótakröfunni eins og hún er lögð fram af hálfu eiganda hússins hefur VÍS hafnað og stefnir nú í dómsmál vegna málsins. Á meðan kvarta nágrannar undan hættu af völdum brunarústanna. Hafa þeir meðal annars látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að fokhætta stafi af rústunum, að húsið sé mikið lýti á hverfinu og veki upp slæmar minningar íbúa þess.
VÍS byggir höfnun sína á mati sem VÍS lét framkvæma á ástandi hússins í kjölfar brunans. Segir í því mati að húsið sé aðeins 70% ónýtt af völdum brunans.
Í matinu segir að húsið sé svo til allt ónýtt að frátöldum gólfplötu og undirstöðum hússins. „[Matsmenn] lýsa þó þeirri skoðun að gólfplata og undirstöður hússins séu alls óskemmdar af eldi og hita og meta því þann hluta heilan, ásamt lögnum í grunni,“ segir í matinu. Þá meta matsmenn útveggi og hluta lagnakerfis óskemmt af eldi og hita og því ekki metinn skemmdur af brunanum. Mat þetta er, samkvæmt skýrslu matsmanna, byggt á „sjónskoðun,“ ljósmyndum sem teknar voru á staðnum. Þá segir að ástand byggingarhluta sé metið frá „ytra útliti sem gefur til kynna heildarástand viðkomandi byggingarhluta.“
Matið hefur vakið undrun, enda þykir óhefðbundið að dæma ástand lagna heilar með „sjónskoðun.“ Eins hafa aðrir bent á að afar hæpið sé að byggingafulltrúi samþykkti endurbyggingu hússins eins og VÍS segir að hægt sé að gera.
Í mati á kostnaði við endurbætur á húsinu segir að tryggingarfjárhæðin sé 155.809.592 krónur. Af því eru rúmar 14 milljónir vegna rifs og hreinsunar. Þá reiknar matsmaður að 0% tjón hafi orðið á undirbyggingu hússins, aðeins 18% tjón sé á burðarvirki hússins, 11% tjón á lögnum hússins og aðeins 9% tjón á innréttingum.
Heildarbætur vegna tjónsins eru reiknaðar um 109 milljónir.
Lögmaður eigandans segir skjólstæðing sinn ekki sætta sig við mat VÍS á tjóninu, enda ljóst hverjum sem er að húsið er gjörónýtt. Það hafi margoft komið fram í máli lögreglu, slökkviliðs og staðfest í skýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar sem enn er óbirt. Ljóst þykir að niðurstöðu verði ekki náð án aðkomu dómstóla.
Ljóst er að fari málið dómstólaleiðina geti meðferð þess tekið langan tíma. Að teknu tillit til stefnu, stefnufrests, frests fyrir stefnda að afla gagna og taka afstöðu til stefnu, þingfestingu, dómkvaðningu matsmanna, frests þeirra til að skila inn skýrslu, hugsanlega dómkvaðningu yfirmatsmanna, annars frests til að skila inn skýrslu, aðalmeðferðar og dómsuppkvaðningar í héraðsdómi er ljóst að þetta verður margir mánuðir. Þá er viðbúið að svona veigamikið mál endi á borði Landsréttar með áfrýjun, sama hver niðurstaðan verður. Þar hefst ballið svo á ný.
Á meðan verður húsið ekki rifið, enda sönnunargagn í dómsmáli.
Eftir stendur krafa byggingarfulltrúa um að húsið sé rifið. Í bréfi dagsett í lok október til eiganda hússins við Bræðraborgarstíg segir að hann hafi 30 daga til þess að sækja um það til byggingafulltrúa að húsið verði rifið eða að útskýra hvers vegna svo verði ekki. Í svarbréfi lögmanns eigandans kemur fram að vegna ágreinings við VÍS sé ekki hægt að rífa húsið að svo stöddu. „Hlutföllun tjónsins m.v. vátryggingarfjárhæð er í engu samræmi við raunverulegt tjón og þann raunverulegan kostnað við endurbyggingu hússins auk hreinsunar. Bent er sérstaklega á að vátryggingarfjárhæðin sem slík er engin mælikvarði á tjónið sjálft eða raunverulegan kostnað við endurbyggingu og hreinsun, heldur segir vátryggingarfjárhæðin einungis til um hvert hámark bóta getur verið,“ segir í bréfinu.
Þá segir lögmaður mannsins þar að upphæðin sé ekki í neinu samræmi við lög og reglur sem gilda um slík tjón og að lokatilraun til þess að ná samningum við VÍS hafi verið gerð 3. nóvember síðastliðinn, án árangurs. Þá segir:
Af þeim sökum hefur umbjóðandi minn ekki um annan kost að velja en að leita til dómstóla með þann ágreining sem uppi er varðandi tjónabætur. Þegar hefur verið tekin ákvörðun um að höfða mál og er vinna í fullum gangi varðandi þá málshöfðun. Í ljósi þess að óhjákvæmilegt er að fara dómstólaleiðina til að knýja fram réttmætar bætur þá hefur það jafnframt þau áhrif að ekki er unnt að rífa og fjarlægja þær brunarústir, sem enn standa að Bræðraborgarstíg 1, fyrr en niðurstaða dómstóla liggur fyrir varðandi þann ágreining.
Í samtali við DV segir Skúli Sveinsson lögmaður Kristins Jóns, að skjólstæðingur sinn myndi gjarnan vilja verða við kröfu Reykjavíkurborgar en það sé einfaldlega ekki hægt fyrr en niðurstaða í deilunni við VÍS liggur fyrir. Þá segir hann að möguleikinn á flýtimeðferð hjá dómstólum sé því miður ekki fyrir hendi, enda uppfyllir málið ekki kröfur laga um slíka meðferð.
„Því meira sem ég hugsa um þetta mál því skýrara sé ég að VÍS er hreinlega að reyna að svindla á umbjóðanda mínum með tjónamatinu sem þeir vita að er alveg kolrangt. Maður hlýtur þá í kjölfarið að spyrja sig hvað þeir hafi eiginlega komist upp með að svindla á mörgum viðskiptavinum sínum með þessari aðferðafræði í gegnum tíðina,“ sagði Skúli jafnframt.
Af orðum Skúla og af gögnum málsins að dæma er ljóst að húsið verður tæpast rifið í vetur.