fbpx
Föstudagur 03.janúar 2025
Fréttir

Svakalegar frásagnir barna af heimilisofbeldi – „Vont að vera í spreng en þora ekki á klósettið“

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 12. nóvember 2020 20:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jenný Kristín Valberg, kynjafræðingur og ráðgjafi í Kvennaathvarfinu, flutti erindið „Börn á ofbeldisheimilum“ á Kynjaþingi, sem fram fór í vikunni. Hluti af erindi Jennýjar voru frásagnir barna sem hafa búið á ofbeldisheimili.

Frásagnirnar voru tvær, frá tveimur stúlkum sem bjuggu á sama ofbeldisheimilinu. Sú fyrri hafði þá stöðu inni á heimilinu að vera ekki „útilokuð“, eins og Jenný orðaði það. Það er að segja, ofbeldismaðurinn beindi ofbeldinu ekki markvisst að henni. Hin frásögnin var frá stjúpdóttur ofbeldismannsins, sem varð markvisst fyrir ofbeldi af hendi hans.

„Mig langaði að hverfa“

Fyrri stúlkan lýsti því að hún hafi búið við mikinn ótta fyrstu ár ævi sinnar vegna föður síns.

„Ég bjó í stanslausum ótta fyrstu ár lífs míns, án þess að vita það. Það leiddi til þess að nú er ég með áfallastreituröskun. Ég brotna niður ef ég heyri hurðir eða skápa skellast, eða þegar einhver hækkar róminn við mig. Ég var alltaf öðruvísi en krakkar á mínum aldri, en áttaði mig ekki á því afhverju.“

Þá lýsir hún ákveðnu atviki þar sem að hún hafi gleymt því að setja öryggiskerfi á húsið og í kjölfarið hafi pabbi hennar neitað henni um mat.

„Ég mátti ekki koma með vini heim, ef ég gerði það var þeim hent út fyrir matartíma og pabbi talaði ekki við mig restina af kvöldinu. Ef ég fór út á kvöldin þurfti ég að vera komin heim mjög snemma, ef ekki þá helti hann sér yfir mig. Þegar ég fór eitthvað út þurfti ég alltaf að vera viss um að öll ljós væru slökkt, allir gluggar lokaðir og allar hurðir læstar.

Einn morgun var ég á leiðinni í skólann. Ég átti að setja kerfið á og læsa hurðinni, en ég var sein og læsti bara hurðinni. Eftir skóla fór ég til ömmu minnar, og svo á æfingu. Pabbi sótti mig á æfinguna um kvöldið og þegar við komum heim ætlaði hann sér að slökkva á kerfinu, sem var ekki á. Hann benti mér á það og ég fraus. Mig langaði að hverfa. Hann horfði í augun á mér, og sneri sér við og fór svo inn í herbergið sitt. Ég labbaði hægt inn í mitt, eins hljóðlega og ég gat, þannig að hann kæmi ekki fram. Ég heyrði svo í honum í herberginu sínu öskrandi í símann. Svo hætti hann að öskra og kallaði á mig. Ég fór ekki úr mínu herbergi, en svaraði „Já“. Þá sagði hann mér að ég fengi ekki kvöldmat því kerfið var ekki á.

Mamma kom svo heim seinna um kvöldið, sagði mér það sem pabbi sagði sér og gaf mér kvöldmat. Þetta er bara einn af mörgum atburðum sem ég man, en pabbi minn stjórnaði heimilinu með þögninni einni.“

Stúlkan segir að vegna ofbeldisins hafi hún ekki verið góð í samskiptum og að hún hafi verið lögð í einelti alla sína grunnskólagöngu.

„Vont að vera í spreng en þora ekki á klósettið“

Seinni stúlkan lýsir því að hún og bróðir sinn hafi alltaf verið góðir krakkar, en að stjúpfaðirinn hafi samt alltaf hata þau. Það hafi alltaf verið mikilvægast að fylgja reglunum sem hann setti.

„Hann hélt okkur hræddum með því að skella hurðum og skápum. Og oft heyrðum við í honum hella sér yfir mömmu yfir því hversu vondir krakkar við værum.“

Hún lýsir ógnarstjórn stjúpföðurins, sem hafi skammtað þeim vatn og mat og bannað þeim að fara á klósettið á nóttinni.

„Við máttum ekki fara í ísskápinn né eldhússkápana eftirlitslaus og stjúpfaðir minn sá um að elda og hann vissi hvað okkur þótti vont að borða. Ég kennd litla bróður mínum að sleppa því að tyggja matinn með vatni, en okkur var skammtað vatn eftir að hann fattaði það. Stundum laumaðist mamma með mat til okkar þegar hann sá ekki til. Við máttum ekki fara á klósettið eftir að ljósin voru slökkt. Ég man hvað það var vont að vera í spreng en þora ekki á klósettið. Einu sinni slökkti ég ekki ljósin í mínu herbergi og fyrir það braut hann stólinn minn.“

Hún segist hafa spurt sig hvort að ástandið væri eins hjá öðrum fjölskyldum. Hún man ekki mikið eftir æsku sinni og segist enn vera ósjálfrátt að fara eftir reglunum sem maðurinn setti þeim. Hún segist ekki hafa fyrirgefið stjúpföður sínum, þó að hann hafi skilið við móður sína fyrir nokkrum árum. Hann hafi þó aldrei sett sig í samband við hana og beðið hana afsökunar.

Hér má horfa á Kynjaþingið í heild sinni en það var rafrænt í ár:

Dagskrá Kynjaþings í ár var svohljóðandi:

Jenný Kristín Valberg kynjafræðingur og ráðgjafi í Kvennaathvarfinu er með erindi sem ber heitið „Börn á ofbeldisheimilum“ í því erindi er meðal annars frásögn tveggja stúlkna sem bjuggu við heimilisofbeldi.

Brynhildur Jónsdóttir sálfræðingur og rekstrarstýra athvarfsins ræðir um áhrif áfalla á heilaþroska barna.

Bergdís Ýr Guðmundsdóttir félagsráðgjafi og sérfræðingur athvarfsins í málefnum barna kynnir áherslur í þjónustu við börnin í athvarfinu.

Drífa Jónasdóttir afbrotafræðingur og verkefnastýra athvarfsins kynnir niðurstöður nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir Kvennaathvarfið um stöðu barna af erlendum uppruna sem flýðu í athvarfið vegna ofbeldis á heimili sínu.

Að lokum var frumsýnt stutt myndband sem hefur það að markmiði að hvetja fólk til að „skipta sér af“ og hafa samband við 1-1-2 ef grunur vaknar um óviðunandi aðstæður barna. 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans

Fundu tengsl milli árásarinnar við Trump-hótelið og árásarinnar í New Orleans
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans

FBI gerði óhugnanlega uppgötvun í Airbnb-íbúð hryðjuverkamannsins í New Orleans
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu

Háskaleikur ungmenna kallaði á afskipti lögreglu
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör

Fjarskiptafyrirtæki mátti bjóða bróður viðskiptavinar betri kjör