Fjörutíu og tveggja ára gamall maður frá Akureyri hefur verið ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni og sérlega hættulega líkamsárás. Atvikið átti sér stað 2. desember 2018.
DV hefur ákæru héraðssaksóknara í málinu undir höndum en ákæran er í tveimur liðum. Í fyrsta lagi er manninum gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að lögreglumanni inni í lögreglubíl fyrir utan Enska barinn í Austurstræti, en lögreglumaðurinn hafði handtekið manninn. Er hann sagður hafa sparkað tvisvar í andlit lögreglumannsins með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut heilahristing, mar á augnloki og augnsvæði og yfirborðsáverka á höfuð.
Í annan stað er manninum gefið að sök að hafa skömmu síðar, á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, hótað fjórum lögreglumönnum sem þar voru við skyldustörf ofbeldi og sagst ítrekað ætla að lemja konur þeirra og börn.
Þess er krafist að maðurinn verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Maðurinn játaði sök sína skýlaust og er dómsuppkvaðning í málinu á morgun.