Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að í umsögn Stefáns segir að auglýsingatekjur RÚV hafi dregist töluvert saman þegar heimsfaraldurinn skall á. Á þessu ári er tekjufallið talið verða um 300 milljónir.
RÚV hefur einnig orðið fyrir umtalsverðum beinum kostnaði vegna heimsfaraldursins, til dæmis vegna þess hlutverks sem RÚV gegnir samkvæmt landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu og lögum. Á þessu ári verður beinn aukinn kostnaður hátt í 80 milljónir.
Þessir þættir og fleiri valda því að rekstur RÚV verður 470 milljónum króna lakari á árinu en ráð var fyrir gert.
Í umsögn sinni segir Stefán að á næsta ári sé gert ráð fyrir að rúmlega 600 milljónir vanti í rekstur RÚV. Þessu verði ekki eingöngu hægt að mæta með hagræðingu og niðurskurði. Fyrirsjáanlegt sé að grípa þurfi til breytinga og samdráttar í dagskrárgerð og fréttaþjónustu.