fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fréttir

Aníta Briem um eineltið: „Þær sáu allt en sögðu ekkert“

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 8. nóvember 2020 09:00

Anita Briem leikkona. Mynd/Anton Brink

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjöldi þekktra einstaklinga hefur stigið fram að undanförnu og deilt sögum af einelti til að skila skömminni og kveða niður ofbeldi. Leikkonan Aníta Briem var lögð í einelti af bekkjarsystur sinni þegar hún var níu ára. Enn í dag finnst henni erfitt að tala um eineltið.

Aníta Briem var lögð í einelti þegar hún var níu ára og var að byrja í nýjum skóla. „Þetta var ein stelpa í bekknum mínum, og til að byrja með myndi hún segja niðrandi og niðurlægjandi hluti um mig, fyrir framan mig, alltaf í hóp svo aðrir heyrðu, og mest þegar sem flestir heyrðu,“ segir hún.

Þegar á leið urðu orðin sem stelpan kallaði Anítu sífellt ljótari. „Hún myndi til dæmis labba upp að mér þegar við vorum að labba í skólasund, hreyta einhverju í mig eins og: „Aníta, þú ert ógeðsleg píka,“ og svo labba í burtu. Svo elti hún mig úr fjarlægð heim úr skólanum og þá fór ég að verða hrædd við að labba ein heim úr skólanum. Vinur minn fylgdi mér stundum. Einu sinni kastaði hún steini á eftir mér.“

Skipti um skóla

Þetta varð til þess að Aníta var stöðugt hrædd um að stelpan myndi birtast og gera eitthvað enn verra. „Jafnvel þegar hún var ekki þarna, var ég að hugsa um það og upplifði mig bara ömurlegri og ómerkilegri með hverjum deginum. Í kringum hana var vinkonuhópur, aðrar stelpur í bekknum, sem ég veit að eru góðar stelpur, en þær sáu samt allt og sögðu aldrei neitt. Það fannst mér líka mjög erfitt,“ segir hún.

Það versta við eineltið segir hún vera að hafa haft þá tilfinningu sem barn að vera minna virði en aðrir. „Það eina sem hjálpaði var þegar ég loksins sagði mömmu frá, eftir næstum heilt ár. Ég skipti strax aftur í gamla skólann minn þar sem ég upplifði aldrei neitt slíkt.“

Aníta á sex ára dóttur sem hún ræðir mikið um þessi mál við. „Við tölum um hvernig ljót hegðun geti oft átt sér rætur í miklu óöryggi eða að viðkomandi líði sjálfum illa og á kannski erfitt í eigin lífi, svo að ef hún lendir í því að vera sýnd svona hegðun hafi hún hugrekki til að segja strax frá. Við megum ekki heldur gleyma því að oft þurfa börnin sem beita aðra einelti líka hjálp. Svona hegðun sýnir enginn nema viðkomandi líði illa sjálfum. Ég segi henni að við berum öll ábyrgð á okkar samfélagi. Ef einhver er að segja ljóta hluti við annan einstakling, þá beri allir í kring, og líka hún, ábyrgð á að annaðhvort grípa inn og segja að svona sé ekki í lagi, svona tali maður ekki við annað fólk, eða þá að segja fullorðnum frá.“

Hatar slúður

Eineltið situr enn í Anítu eftir allan þennan tíma. „Mér finnst meira að segja pínu erfitt að tala um þetta núna. Fæ nákvæmlega sömu tilfinningu í magann. Um daginn hitti ég eina bekkjarsystur mína úti í búð. Hún gerði mér aldrei neitt en var besta vinkona gerandans. Og þarna, þrjátíu árum seinna, skalf ég öll inni í mér í gegnum kurteisislegt samtal, vonandi að hún tæki ekki eftir því.“

Á fullorðinsárum hefur hún séð eineltistilburði fullorðna fólksins, sem notar slúður til að níðast á öðrum. „Slúður er í raun bara fullorðins útgáfa af því að finna höggstað á öðru fólki. Það er ekki til neitt sem heitir jákvætt slúður. Fólk slúðrar aldrei um hvað einhver er að springa úr hæfileikum eða sé með svo ósegjanlega flott hár. Það slúðrar um hluti sem eru hættulega viðkvæmir fyrir aðra og geta mögulega meitt aðra eða niðurlægt.“

Viðtalið birtist fyrst í helgarblaði DV 30. október.

Einfalt er að kaupa prent- og/eða vefáskrift hér: dv.is/skraning

Dýrkuð og dáð en lentu í einelti sem börn

Sindri var lagður í hrottalegt einelti – „Ég upplifði skóla sem fangelsi“

Menntamálaráðherra: Óásættanlegt að þolendur eineltis þurfi að flýja skólann sinn – Svona hefur þú samband við fagráð eineltismála

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund
Fréttir
Í gær

Fangi lést á Litla Hrauni í dag

Fangi lést á Litla Hrauni í dag
Fréttir
Í gær

Önnur skriða féll á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals

Önnur skriða féll á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals
Fréttir
Í gær

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti
Fréttir
Í gær

FA ósátt við reglugerð Willums – Sígarettur fara í kúkabrúnar umbúðir

FA ósátt við reglugerð Willums – Sígarettur fara í kúkabrúnar umbúðir