Smit greindist meðal nemenda í Vogaskóla í dag. Líkt og Fréttablaðið sagði frá í gær greindist smit meðal kennara í Vogaskóla í gær. Þrátt fyrir það var sú ákvörðun tekin að senda ekki nemendur í sóttkví vegna grímunotkunar og fjarlægðartakmarkanna. Þó voru nokkrir kennara á unglingastigi sendir í sóttkví fram á að minnsta kosti mánudag.
Snædís Valsdóttir, skólastjóri í Vogaskóla, sagði við Fréttablaðið í gær að vegna þess að skólinn hafi fylgt reglum almannavarna um grímunotkun og fjarlægðarmörk, væri ekki talin ástæða til að senda nemendur í sóttkví.
DV hefur heimildir fyrir því að foreldrar séu ekki sáttir með viðbrögðin í kjölfar smitsins hjá kennaranum. Reiðin beinist fyrst og fremst að þeirri ákvörðun að senda börnin ekki í sóttkví strax og smitið hjá kennaranum kom upp.
Samkvæmt heimildum DV hefur foreldrum ekki verið tilkynnt um hvort og þá til hvaða aðgerða skólastjórnendur muni grípa, en von er á tilkynningu til foreldra frá skólastjórnendum áður en skólahald hefst á ný eftir helgarfrí.
Snædís Valsdóttir skólastjóri vildi ekki tjá sig við málið að svo stöddu við fjölmiðla þegar DV hafði samband við hana í kvöld.
Uppfært kl 23:57:
Snædís hefur nú sent foreldrum og forráðamönnum barna í bekknum sem um ræðir í Vogaskóla tölvupóst vegna málsins. „Mér þykir leitt að tilkynna ykkur að smit hefur komið upp hjá nemanda,“ segir í póstinum.
„Unnið er nánari rakningu og til að gæta fyllsta öryggis þá er það er krafa smitrakningarteymis almannavarna og sóttvarnalæknis að nemendur í 10. bekk Vogaskóla, eigi að fara í sóttkví frá og með föstudeginum 6. nóvember til og með föstudagsins 13. nóvember þar sem þeir voru útsettir fyrir smiti vegna COVID-19 veirunnar. Þið munið fá nánari upplýsingar frá smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis á næstu dögum sem og sms strikamerki sem þið þurfið að framsýna í sýnatökunni sem fram fer á sjöunda degi.“