Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. „Þetta var ógeðslegt, eins og í bíómynd,“ hefur blaðið eftir einum sjónarvottanna sem vill ekki koma fram undir nafni. Hann lýsti því hvernig einn lögreglumannanna beitti piparúða á manninn og að annar lögreglumaður hafi slegið hann ítrekað í höfuðið með kylfu, allt þar til maðurinn rotaðist og féll á jörðina.
Stöðvarstjóri lögreglunnar í Hafnarfirði staðfesti við Fréttablaðið að til átaka hafi komið á milli lögreglumanna og manns sem var grunaður um vörslu fíkniefna og sagðist vera smitaður af COVID-19. Kallað hafi verið eftir svokölluðum COVID-bíl lögreglunnar vegna þessa.
Sjónarvottar segja að lögreglumenn hafi brotið rúðu í bíl mannsins og upp úr því hafi átök brotist út. Einn lögreglumannanna er sagður hafa beitt piparúða, annar hafi fengið úða í augun og hafi sveiflað kylfu sinni og lamið manninn ítrekað í höfuðið. Hann hafi fallið í fang lögreglumanns og síðan á götuna. Segir sjónarvotturinn að allir lögreglumennirnir fjórir hafi síðan haldið áfram að berja manninn eftir að hann missti meðvitund.
Segja þeir að blætt hafi úr höfði hans og hann hafi legið meðvitundarlaus um stund í eigin blóði. Eða þar til COVID-bíllinn kom en þá hafi lögreglumenn borið hann inn í bílinn.
Nefnd um eftirlit með störfum lögreglu staðfestir að kvörtun hafi borist í tengslum við handtökuna og að málið sé til skoðunar.