Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu í tilefni af umfjöllun Fréttablaðsins í dag um meint ofbeldi við handtöku manns við Hvaleyrarholt á mánudag.
Þar er haft eftir sjónarvottum að fjórir lögreglumenn hafi gengið hart fram við handtöku á manni sem grunaður var um vörslu fíkniefna og sagðist vera með COVID-19. Hafi þeir beitt piparúða og kylfum. Hafi maðurinn legið meðvitundarlaus í blóði sínu eftir átök við lögreglumennina.
Í tilkynningunni segir að lögreglan geti ekki tjáð sig um málið þar sem það sér til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Tilkynningin er svohljóðandi:
„Vegna umfjöllunar Fréttablaðsins í dag um handtöku manns í Hafnarfirði sl. mánudag vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu taka fram að málinu hefur þegar verið vísað til rannsóknar hjá embætti héraðssaksóknara. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu getur því ekki tjáð sig frekar um málið á meðan svo er.
Á meðal málsgagna eru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna á vettvangi.“