„Skiptastjóri fær bókhald félagsins í hendur og í því koma fram kröfur. Það er einfaldlega verið að kalla eftir svörum og skýringum fólks. Að því búnu förum við yfir þetta,“ segir Sveinbjörn Claessen, lögmaður, í samtali við DV, en hann hefur fyrir hönd skiptastjóra þrotabús Jóa Fel, Gríms Sigurðssonar, sent fjölmörg bréf á fyrrverandi starfsmenn Jóa Fel og sagt að samkvæmt upplýsingum í bókhaldi félagsins skuldi þeir þrotabúinu peninga. Upphæðirnar sem nefndar eru spanna frá rúmlega 20 þúsund krónum upp í 267 þúsund krónur.
Fyrrverandi starfsfólk hjá Jóa Fel sem hefur fengið svona bréf frá lögmannstofunni Landslög í ábyrgðarpósti hefur tjáð DV að það skuldi fyrirtækinu enga peninga. Úttektir hafi alltaf verið dregnar frá launum og það eigi launaseðlar að sýna. Sumir sem hafa fengið svona bréf hættu störfum hjá Jóa Fel fyrir nokkrum árum.
„Við erum að fá svör og skýringar frá fólki og förum yfir það. Launaseðlar eru vissulega til í bókhaldinu en við töldum heppilegra að kalla eftir skýringum frekar en að fara í gegnum hvern einasta launaseðil mörg ár aftur í tímann. Þetta er einfaldari og fljótlegri leið,“ segir Sveinbjörn.
Sveinbjörn segir að ekki hafi verið ætlunin að valda neinum hugarangri með bréfasendingum en nauðsynlegt hafi verið að kalla eftir upplýsingum:
„Það var ekki ætlunin að valda neinum hugarangri, tilgangurinn með þessu er alls ekki að búa til æsing heldur þvert á móti. En það er hlutverk skiptastjóra að kanna þennan anga á þrotabúinu. Við förum bara yfir þær skýringar og svör sem við fáum.“