Alls greindust 25 með COVID-19 í gær og þar af voru 20 í sóttkví. Þetta eru ánægjulegar tölur miðað við þróunina undanfarið. Alls voru 2.084 sýni tekin í gær.
Í tali Víðis Reynissonar á upplýsingafundi dagsins kom fram að heilbrigðiskerfið væri undir miklu álagi en álag á sóttvarnarhúsum væri farið að minnka. Víðir sagði að við værum á ákveðinni ögurstund í þessari bylgju og hvatti hann fólk til að vera heima um helgina.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að ánægjulegt væri að sjá hvað fáir voru greindir utan sóttkvíar í gær, eða fimm. Þá fer hlutfall jákvæðra sýna lækkandi. Sagði Þórólfur að merki væru um að faraldurinn væri á niðurleið en lítið þyrfti út af að bregða til að kæmi upp hópsýking.
Fækkun hefur orðið á greindum smitum sem tengjast hópsýkingunni sem tengjast Landakoti.
Einn einstaklingur lést á Landspítala í gær og var hann yfir nírætt. Er þetta átjándi einstaklingurinn sem lætur lífið vegna COVID-19 hér á landi.
Þórólfur segir að vonandi takist að byrja tilslakanir þann 18. nóvember en fara verði í tilslakanir hægt og rólega. Setja þurfi fram sviðsmyndir á næstunni um hvernig við sjáum faraldurinn fyrir okkur næstu mánuði.