„Ég veit ekkert um þetta,“ segir Skúli Mogensen, fyrrverandi forstjóri WOW air, um vefsíðuna momair.is sem virðist vera vefsíða nýs flugfélags sem ætlar að hefja flug í desember og lofar ókeypis flugi í eitt ár. Einnig segir á vefsíðunni að stefnt sé á blaðamannafund 11. nóvember.
Útlit síðunnar líkist mjög hönnun WOW air sáluga og M-in í MOM virðast vera W á hvolfi með sömu stafagerð og í merki WOW air.
Vefurinn er allþungur og því erfitt að ferðast á milli efnisliða. Af einhverjum ástæðum hefur listamaðurinn Odee, Oddur Eysteinn Friðriksson, verið bendlaður við framtakið. DV hringdi í hann og kannast hann ekki við að þetta sé einhver gjörningur á hans vegum. Hann sagði hins vegar að nokkrir blaðamenn hefðu hringt í hann vegna málsins.
Á vefsíðunni segir meðal annars að í flugferðum á vegum MOM air verði boðið upp á ekta mömmumat. Þá segir að bókunarvél flugfélagsins fari í loftið 9. nóvember.