Stefán Jakobsson tónlistarmaður tekur upp hanskann fyrir ónafngreindan vin sinn sem á yfir höfði sér fjárnám næstu daga vegna meðlagsskulda. Hann og barnsmóðir hans höfðu gert samkomulag um að deila kostnaði við uppeldi barnsins og forsjá þess og sleppa meðlagsgreiðslum, en slíkt samkomulag hefur ekkert lagalegt gildi þegar á reynir.
Stefán ræddi málið í útvarpsþættinum Harmageddon á X-inu í morgun.
Vinur Stefáns og barnsmóðir hins skildu árið 2013. Það varð að samkomulagi þeirra að faðirinn greiddi ekki barnsmeðlag heldur tæki þátt í kostnaði og uppeldi barnsins til jafns við móðurina. Ekki er hægt að skrifa undir neitt lögformlegt samkomulag þess efnis.
Fyrir rúmu ári síðan sendi barnsmóðirin vini Stefáns tölvupóst þess efnis að hann hefði svikist um að greiða meðlag. Með fylgdi krafa um greiðslu meðlags síðara ár. Vinur Stefáns greiddi þessa kröfu. Núna hefur hann fengið stefnu um að greiða meðlag sjö ár aftur í tímann auk dráttarvaxta, kröfu sem er vel á fjórðu milljón króna, ellegar verði gert fjárnám hjá honum. Málið verður tekið fyrir hjá sýslumanni eftir um viku.
Stefán segir þá fullyrðingu barnsmóðurinnar um að vinur hans hafi svikist um að greiða meðlag ekki standast. „Ef lögheimilisaðili sækir um meðlag þá er það samþykkt, þá innheimtir Innheimtustofnun sveitarfélaga það og Tryggingastofnun greiðir það út,“ bendir Stefán á. Vinur hans hafi einfaldlega ekki greitt meðlag fram að þessu vegna þess að barnsmóðir hans hafi ekki sótt um það, vegna samkomulags þeirra um að fella það niður.
Fyrningartími meðlagskrafna er tíu ár. Stefán og þáttarstjórnandi komust að þeirri niðurstöðu að hagstæðast væri fyrir lögheimilisaðila að sækja um meðlag rétt áður en tíu ár eru liðin til að fá sem hæsta dráttarvexti.
„Manni verður óglatt, þetta er svo ógeðslegt,“ segir Stefán. „Gallinn liggur í því að þessi vopn eru til staðar, vegna þess að aðilinn sem hefur lögheimiliið er alltaf með þessi vopn til þess að geta kúgað hinn, af því kerfið býður upp á það að hægt sé að fara í þennan dans og haga sér svona.“
Stetán telur það mikinn galla á lögum að foreldrar geti ekki samið um það lögformlega hjá sýslumanni að hafa ekki uppi kröfur um meðlag. Þegar foreldrar gera slíkt samkomulag sín á milli hefur það ekkert gildi því það foreldri sem er með lögheimili barnsins getur hvenær sem er krafist meðlagsgreiðslna aftur í tímann með dráttarvöxtum.
Í þættinum var lesin upp opin stöðufærsla sambýðiskonu vinar Stefáns. Hún segir meðal annars:
„Búmm!! Sprengja fellur á þriðjudag í síðustu viku, nánar tiltekið 27. október. Þá er bankað á dyr og úti stendur stefnuvottur með bréf stílað á XXX. Martröðin orðin að veruleika. Okkur hefur verið stefnt. Titill bréfsins: Boðun í fjárnám. Reikningurinn núna kr.3.059.605 kr. Ég ætla ekki að ljúga, síðasta vika var ein erfiðasta vika lífs míns. Barnavika nýbyrjuð svo eins gott að halda andliti þrátt fyrir lystarleysi, svefnleysi og tíðar klósettferðir. Ég hef grátið í vinnunni, ég hef setið tímunum saman úti í bíl og grátið. Við XXX bæði í símanum eða sendandi/takandi á móti tölvupóstum seinni part dags og á kvöldin leitandi svara og hvort það se einhver þarna úti sem mögulega geti hjálpað. Einhver til að leiðrétta þetta ógeðslega óréttlæti.
Þetta snýst allt um bréfið, bréfið sem var skrifað undir við sambúðarslitin. Gallinn í kerfinu er sá að það er ekki til neinn annar samningur heldur þarf fólk bara að treysta á að hinn aðilinn svíkji það ekki. Allir sem þekkja XXX og meira að segja þeir sem þekkja hann ekki vita að hann setur sjálfan sig aldrei í fyrsta sæti. Hann gæti ekki svikið samkomulag þótt líf hans lægi undir.
XXX hefur ekkert gert af sér, annað en að kynnast annarri konu og byggja með henni nýtt og gott líf.“
„Við vitum að sprengjuregninu er hvergi nærri lokið, spurning er bara hvenær næsta sprengja fellur og af hvaða stærðargráðu hún verður. En eitt máttu vita – þú hvorki beygir okkur né brýtur. Við stöndum kveik.“