Hundruðir undanþágubeiðnir hafa borist almannavörnum og heilbrigðisráðuneytinu og sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, á upplýsingafundi almannavarna nú í morgun að starfsmenn hafa verið að vinna fram á nótt við að svara þessum undanþágubeiðnum.
„Það er mikilvægt að ef við eigum að horfa á þessar aðgerðir og þær eiga að skila einhverjum árangri að það séu ekki allir að leita að einhverjum undanþágum,“ sagði Víðir á fundinum. „Ég held að það hafi verið tiltölulega skýrt að við værum að fara í ansi harðar aðgerðir og markmiðin nást ekki ef það á að veita undanþágur til allra. Við hvetjum þá sem ekki eru með beinlínis lífsnauðsynlega starfsemi í gangi að vera ekki að sækja um undanþágur.“
Til þessa hörðu aðgerða er gripið til þess að ná því markmiði að hefta samfélagsleg smit og koma lífinu í sinn vanagang sagði Víðir. Þá sagði hann ástandið í heilbrigðiskerfinu og samfélaginu almennt væri þannig að ekki væri hægt að verða við þessum beiðnum.
Víðir skýrði þá reglugerðina sem snéri að verslunum, en misskilnings virðist hafa gætt vegna þeirra. Skýrði hann reglurnar þannig að 10 starfsmenn mega vera saman í hólfi, og að þeir 10 mega ekki deila salernis- og kaffiaðstöðu með öðrum starfsmönnum.
Víðir vék svo að grímuskyldu í verslunum: „Það er eitt alveg ótrúlegt mál sem við höfum verið að fást við um helgina,“ sagði Víðir og nefndi að hann hafi heyrt sögur af ókurteisi, hótanir og nánast ofbeldi frá viðskiptavinum verslana sem ekki vildu setja á sig grímur. Víðir áréttaði að það væri vissulega grímuskylda í verslunum. „Þetta er svo mikið kjaftæði, að ég bara trúi ekki að við séum að takast á við þetta núna,“ sagði Víðir, bersýnilega nokkuð heitt í hamsi.