Stjörnuvitlaust veður er í spákortum fyrir morgundaginn, þriðjudaginn 3. nóvember.
Gert er ráð fyrir norðvestan stormi um á Suður-, Suðaustur og Austurlandi frá og með 8 í fyrramálið og um klukkan 10 verður á svæðinu frá Öræfajökli og að Höfn í Hornafirði óveður af verstu gerð. Má gera ráð allt að 40 metrum á sekúndu undir jökli og ívið hvassari hviðum. Ekki er að vænta mikillar úrkomu með óveðrinu.
Eftir því sem líður á þriðjudaginn þokar storminum út á haf en á aðfaranótt miðvikudags tekur aftur að hvessa, þá vestan til og úr sunnanátt.
Sunnanstormurinn snýr sér svo snemma á miðvikudag í suðaustansudda og færir sig austur á land. Hlýnar með sunnanáttinni eins og venja er fyrir og fylgir henni mikil úrkoma, einkum sunnan og suðvestan til.
Gular viðvaranir eru þegar í gildi fyrir allt Suðausturland, Austurland, Norðurland eystra og miðhálendið. Verða þær allar í gildi í einu á þriðjudagsmorgun. Ekki hafa verið gefnar út neinar litakóðaðar viðvaranir fyrir miðvikudaginn.