Kaupsýslumaðurinn og stjórnmálarýnirinn Ole Anton Bieltvedt fer hörðum orðum um hið svokallaða þríeyki í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Hann segir það standa fyrir vafasömum fullyrðingum og hræðsluáróðri.
Í pistli sínum er Ole í raun að svara pistli þríeykisins sem birtist í Fréttablaðinu þann 15. október. Fyrst um sinn segist hann hafa staðið með þeim, en það hafi breyst síðasta ágúst
„Ég stóð með þeim lengi vel en leiðir skildi fyrst þegar þau hvöttu til „lokunar“ landamæranna, sem tók gildi 19. ágúst og engu góðu hefur skilað, bara illu, og nú með þessari grein breikkaði bilið enn frekar því ég tel að nú hafi þríeykið illu heilli farið út fyrir ramma þess sem satt er og rétt.“
Ole heldur því til að mynda að veiran sé veikari en áður og það sannist því færri hafi farið á gjörgæslu og dánartíðnin sé lægri en áður.
„Í greininni [Þríeykisins] segir m.a.: „Þá er hugsanlegt að veiran veikist með tímanum líkt og gerðist í spænsku veikinni þó að enn séu engin merki um slíkt.“
Því miður eru þessi lokaorð staðlausir stafir og illskiljanlegt að gott fólk skuli láta svona rangfærslur frá sér fara.
Staðreyndin er, eins og landlæknir staðfesti á upplýsingafundi 24. september sl., að í fyrri bylgju sl. vor varð að leggja 7% þeirra sem smituðust inn á spítala en nú aðeins 2%.
Í fyrri bylgju voru 13-15 manns í senn í gjörgæslu en nú mest fjórir, auk þess sem þá létust 10 en nú í annarri bylgju aðeins einn.
Auðvitað hefur því veiran stórlega veikst!
Dánartíðni er vitaskuld skýrasti og besti mælikvarðinn á hættu og skaðsemi sjúkdóms, á sama hátt og fjöldi smita einn sér hefur lítið gildi, einkum ef þeir sem smitast – hér alla vega helmingurinn nú – finna ekki fyrir veikindum; vita ekki að þeir eru veikir.
Covid-dánartíðnin nú, samanborið við í vor, er sem sagt 1 á móti 10. Svipuð þróun hefur orðið um alla Vestur-Evrópu.“
Þríeykið hefur ekki líst yfir miklum áhuga á því að ná upp hjarðónæmi, en það segi Ole að sé „yfirkeyrður hræðsluáróður.
„Það tekur þó út yfir allan þjófabálk í þríeykisgreininni þegar þau stilla því upp hvað myndi gerast ef stefnt yrði á hjarðónæmi.
Þar fullyrðir þríeykið – fyrir mér úr lausu lofti gripið og án raunverulegrar þekkingar vitneskju eða raka; við erum hér að tala um eitthvað sem kynni að gerast við einhverjar aðrar nú óþekktar aðstæður – að þá myndu 7.000 einstaklingar þurfa innlögn á sjúkrahús, 1.750 þyrftu að fara í gjörgæslu og 660 myndu látast.
Og að því litla leyti sem þau hafa einhver raunveruleg viðmið, þá eru þau við það sem gerðist í mars-apríl fyrir hálfu ári en ekki við þann raunveruleika sem nú er og er verulega annar. Hér er um tífaldan mismun að ræða. Vart heiðarleg vinnubrögð það.
Kom eitthvað yfir þetta blessaða og annars ágæta fólk okkar? Hvernig getur það látið svona ógrundaðan hræðsluáróður frá sér fara?“
Að lokum fullyrðir Ole að hin svokallaða þriðja bylgja sé í raun „hálfgert rugl“, en að hans mati eru bylgjurnar einungis tvær. Hann segir „ruglið“ um þriðju bylgjuna dæmigert fyrir umræðuna sem nú sé í gangi í samfélaginu, sem er að hans mati óvönduð og hræðsludrifin.
„Tal um þriðju bylgjuna hér er tal þeirra sem fátt skoða og lítið vita. Ef nú er þriðja bylgjan, hvenær var þá önnur bylgjan? Ef línurit um smitþróun fyrir Ísland er skoðað sést fyrsta bylgjan rísa í mars-apríl, svo kemur í raun öldudalur apríl-september, reyndar með smá gárum í ágúst, en svo rís önnur bylgjan í byrjun september.
Mér er sagt að þriðja bylgjan hafi orðið hér til við spurningu blaðamanns til sóttvarnalæknis um hvort ekki mætti fara að tala um þriðju bylgjuna, sem hann virðist hafa jánkað bara si svona.
Í raun má segja að ruglið um þriðju bylgjuna hér sé dæmigert fyrir þá óvönduðu og oft tilfinninga- og hræðsludrifnu umræðu sem hér er í gangi um Covid og nýtur fulls stuðnings já-og-amen-hersins.“