Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Þórólfi að það kreppi víða að í þjóðfélaginu um þessar mundir og enginn eigi að líða neyð vegna þess, mikilvægt sé að standa saman í þessari baráttu.
Um kjöt, fisk og mjólkurvöru er að ræða, íslenska hágæðamatvöru, sem Þórólfur sagði að væri ekki kominn nærri síðasta söludegi.
„Nei, þetta er allt fyrsta flokks matur, hið sama og við erum að flytja úr landi eða selja í búðir hér innanlands,“
er haft eftir honum. Hann sagðist jafnframt telja mikilvægt að íslenskt atvinnulíf og matvælaiðnaður standi með þeim, sem eiga á brattann að sækja í því óvenjulega þjóðfélagsástandi, sem nú ríkir.
„Skagafjörður er mikið matvælaframleiðsluhérað og við lítum á það sem skyldu okkar að koma að liði við þessar aðstæður,“
sagði hann einnig.
Fram undan er vinna við að skipuleggja dreifingu á matvörunum en hjálparstofnanir munu sjá um hana. Heimsfaraldurinn og ástandið vegna hans gera dreifinguna erfiðari en ella því gæta þarf að sóttvarnaráðstöfunum og aðgerðum.
„Þetta er alger himnasending. Þetta er stærsta matargjöf allra tíma og hún gæti ekki komið á betri tíma. Ég veit ekki hvort fólk gerir sér grein fyrir því hvað ástandið er slæmt. Þörfin hefur aldrei verið meiri, ekki einu sinni í hruninu,“
hefur Morgunblaðið eftir Ásgerði Jónu Flosadóttur, formanni Fjölskylduhjálpar Íslands, en hún sagði einnig að hún hafi aldrei kynnst öðru eins ástandi á þeim 26 árum sem hún hefur starfað við hjálparstörf.