Árið 2013 hlaut Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal forvarnarverðlaun TM. Verðlaunin voru veitt þeim fyrirtækjum sem hafa skarað fram úr á sviði forvarna gegn óhöppum og slysum. Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma.
Í tilkynningu frá TM á þeim tíma er haft eftir Einari Val Kristjánssyni, þáverandi og núverandi framkvæmdastjóra Hraðfrystihússins að starfsfólkið sé lykillinn að viðurkenningunni. Hefur Vb.is eftir Einari: „Lykillinn hjá okkur er fyrst og fremst lítil starfsmannavelta. Okkar starfsmenn halda vel utan um hlutina og hvern annan, t.d. eru þetta mikið til sömu mennirnir á skipunum okkar.“
Lögreglan á Vestfjörðum skoðar nú málið og útilokar ekki að hafin verði sakamálarannsókn á hugsanlegum brotum útgerðarinnar og skipstjórans. Í lögum er skipstjóri gerður ábyrgur fyrir velferð áhafnar og varðar það við þau lög að koma sjúkum eða slösuðum áhafnarmeðlimum ekki til bjargar.
Í tilkynningu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í gær sem Fréttablaðið sagði frá sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir framkvæmdastjóri SFS að útgerðin yrði að axla ábyrgð á málinu og að það hefði skaðað samskipti sjómanna og útgerða um allt land. Samtökin ættu að þekkja vel til skipsins, því eins og Stundin sagði frá fyrr í dag eru myndskeið af skipinu notuð í kynningarmyndbandi SFS um samfélagsábyrgð.