„Við getum alveg reiknað með hrinum næsta árið,“
hefur Fréttablaðið eftir Ármanni Höskuldssyni, eldfjallafræðingi, í umfjöllun um málið í dag. Haft er eftir honum að sú spennulosun sem nú á sér stað á Reykjanesi hafi hafist í Þorbirni og færist nú nær borginni.
„Miðað við kortlagningu á sniðgengissprungum, sem valda stóru skjálftunum, virðist þetta vera að færast í átt að Bláfjöllum og Hengli. Þar lýkur þessu því þá er það komið í tenginguna við Suðurlandsskjálftabeltið,“
er haft eftir honum.
Frá því í janúar hefur mikil spennulosun verið á Reykjaneshryggnum og á sama tíma er hrina á Kolbeinseyjarhryggnum og sagðist Ármann hafa meiri áhyggjur af þeirri hrinu.
„Ég hef meiri áhyggjur af hryggnum fyrir norðan því þar hefur spennan byggst upp mjög lengi. Sú hrina sem byrjaði þar í sumar er nú að færa sig sífellt nær Húsavík. Þar eru sprungur sem hafa ekki hreyft sig í hundrað ár.“