Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis lauk rétt í þessu fundi þar sem fjallað var um heimildir sóttvarnalæknis til aðgangs að persónuupplýsingum við rakningu kórónuveirusmita. Til fundarins boðaði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata og fulltrúi þeirra í nefndinni.
Aðgerðir sóttvarnalæknis, smitrakningarteymis almannavarna og ríkislögreglustjóra hafa verið til umræðu undanfarna daga. Þá sagði DV frá því í morgun að smitrakningateyminu hafi verið afhent víðtækar upplýsingar um kortanotkun fólks í þágu smitrakningar. Byggði sú afhending svo til alfarið á áliti Persónuverndar þar sem kemur fram að sóttvarnalæknir hafi víðtækar heimildir til slíkrar gagnaöflunar. Þó var það ríkislögreglustjóri sem óskaði eftir og tók við gögnunum.
Gestir fundarins voru Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, Reimar Pétursson, lögmaður sem hefur látið aðgerðir heilbrigðisyfirvalda í þessum málum sig varða, og Ástríður Stefánsdóttir hjá Siðfræðistofnun Háskóla Íslands.
Samkvæmt heimildum DV var það meðal annars til umfjöllunar á fundinum hvort sóttvarnarlögin séu of víðtæk og þá hvort yfirvöld hafi of víðtækar heimildir og hvort þeim hafi verið beitt með réttum hætti.
Í samtali við blaðamann DV eftir fundinn sagði Þórhildur að áhyggjur hennar snúa fyrst og fremst að skýrleika laganna. „Þegar þú ert yfir höfuð með heimildir til takmörkunar á mannréttindum fólks, verða þau ákvæði að vera skýr. Í þessu tilfelli er það alveg skýrt af hálfu Persónuverndar að það megi safna persónuupplýsingum og lagaheimildin er til staðar, en vissulega væri það betra að hún væri skýrari,“ sagði Þórhildur.
Þórhildur sagði jafnframt að í lögin vantaði ákvæði er varða mat á meðalhófi við beitingu aðgerða og nefnir sem dæmi að hvergi sé minnst á heimild fólks til að skjóta úrræðum sóttvarnayfirvalda til dómstóla. „Það er nokkuð sláandi að ekki sé saumað inn í lögin skyldu til að meta meðalhóf við beitingu úrræða. Það hefur auðvitað aldrei reynt á þessi lög í heimsfaraldri og svona víðtækum heimildum aldrei áður beitt,“ sagði hún. „Til dæmis er ekki skýr heimild fyrir að setja fólk í sóttkví. Það ætti að vera í lögunum að hægt væri að skjóta ákvörðun um sóttkví til dómstóla, enda þar um frelsisskerðingu að ræða sem er mjög íþyngjandi aðgerð.“
Þórhildur sagðist hafa upplifað á fundinum mismunandi sýn Persónuverndar annars vegar og sóttvarnayfirvalda hins vegar. „Þau virtust ekki alveg deila sýn gagnvart því hvernig meta eigi nauðsyn og meðalhóf við beitingu þessara úrræða,“ sagði Sunna en tók þó fram að í þessu tilfelli sem um ræðir hafi bæði meðalhófið og nauðsyn verið til staðar. „Mér sýnist meðalhófið og nauðsyn þessara aðgerða hafa verið uppfyllt, en við erum áfram að hugsa um skýrleika laganna og að það verði ekki hægt að beita slíkum úrræðum í hvaða tilfellum sem er.“ Þórhildur segir knýjandi nauðsyn eina forsendu beitingu svo víðtækra úrræða, og að það verði að endurspeglast í lögunum.
„Það er mjög gott að þessi umræða sé í gangi. Það er einmitt á neyðartímum sem auðveldast er fyrir stjórnvöld að skerða réttindi fólks og mikilvægt fyrir almenning á hættutímum að vera vakandi fyrir þeim möguleika. Á hættutímum opnast þessi möguleiki fyrir skerðingu á réttindum og slíkar skerðingar eru ekki alltaf afturkræfar. Ein leið til að fyrirbyggja slíkt er að halda uppi líflegri og uppbyggjandi umræðu um beitingu slíkra úrræða,“ sagði Þórhildur.
Þórhildur segir í því samhengi að ríkisstjórn og ráðherrar hafi ekki verið nægilega dugleg að upplýsa almenning um hvaða mat fer fram á réttmæti ákvarðana sem teknar eru og að hún hafi meðal annars benti Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra á þetta í óundirbúnum fyrirspurnum fyrir skemmstu.