Stór jarðskjálfti fannst mjög greinilega á höfuðborgarsvæðinu rétt í þessu eða um 13:40. Skjálftinn var nokkuð stór og hristust ljóskrónur og gólfið nötraði. Fólk er minnt á að aðrir skjálftar geta fylgt í kjölfarið og er fólki bent á að leita skjóls í dyraopum.
Fréttin verður uppfærð.
13:47
Skjálftinn mældist 5,6 á Richterskvarðann samkvæmt mælingum Veðurstofu. Upptök skjálftans eru 4,1 km vestur af Krýsuvík.
14:00
Annar skjálfti upp á 3,o á Richterskvarða mælist kl 14:00 á sama svæði. Enn eru að mælast töluverður fjöldi minni skjálfta.
14:13
Veðurstofan hefur yfirfarið upplýsingar og metur nú skjálftann upp á 4,9 á Richter. 15 skjálftar yfir 2,0 á Richter hafa mælst í dag. Almannavarnir hafa kallað eftir upplýsingum um tjón á Reykjanesi þar sem skjálftarnir eiga upptök sín. Jóhann K. Jóhannsson upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra segir að almannavörnum hafi ekki borist fregnir af tjóni á Suðurnesjum en eru að kalla eftir frekar upplýsingum frá sínu fólki á Suðurnesjum
14:15
Samkvæmt útvarpsfréttum RÚV hafa Almannavarnir verið virkjaðar.
14:20
Samkvæmt heimildum DV fannst skjálftinn alla leið á Vestfirði. Lýstu íbúar Ísafjarðar því fyrir DV að þar hafi allt titrað og skolfið og sagðist ein hafa misst jafnvægisskyn sitt tímabundið.
15:35
15:32 mældist annar stór skjálft upp á 4,6 á Richter. Skjálftinn mældist 3,2 km norðvestan af Fagradalsfjalli en fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.
Alls hafa 68 skjálftar yfir 2 á Richterskvarða mælst í dag, þar af 12 skjálftar yfir 3 á Richter.