Samherji segist hafa komist yfir mörg hundruð blaðsíðna dagbækur Jóhannesar Stefánssonar frá þeim árum er hann stýrði rekstri Samherja í Namibíu. Segir í nýbirtu myndbandi Samherja, sem er um sjö mínútna langt, að ekkert í dagbókunum bendi til þess að hann hafi stundað mútugreiðslur í samráði við Þorstein Má Baldvinsson eða aðra stjórnendur Samherja.
Í fréttaþættinum Kveikur lýsti Jóhannes umfangsmiklum mútugreiðslum upp á samtals andvirði um einn milljarð íslenskra króna til áhrifamanna í Namibíu í því skyni að greiða fyrir úthlutun makrílkvóta til Samherja. Sagðist Jóhannes hafa innt þessar greiðslur af hendi í samráði við Þorsteinn Má Baldvinsson.
Í þættinum er jafnframt spilaður, úr samhengi, samtalsbútur þar sem Jóhannes segir: „Mái hefur engan áhuga á þessu, hann er ekkert í þessu, hann vill ekki gera þetta. Allir sem ég hef talað við það hefur enginn álit á Samherja og enginn neina trú á Samherja trúa aldrei að þeir myndu gera nokkurn skapaðan hlut…“ – Tekið skal fram að ekkert kemur með óyggjandi hætti fram í þættinum sem sannar að Jóhannes hafi þarna verið að tala um mútugreiðslur þarna.
Þá segir að óreiða hafi einkennt rekstur Samherja í Namibíu sem Jóhannes stýrði frá 2012 til 2016 en þá var honum sagt upp störfum. Segir að 2016 hafi staðan verið sú að Jóhannes hafi ekki haft neina stjórn á starfseminni. Sölustjóri fyrirtækisins frá þessum tíma fullyrðir að Jóhannes hafi oft horfið vikum saman og ekki verið hægt að ná í hann. Segir hún að þetta ástand hafi byrjað í lok árs 2015.
Þá er fullyrt að Jóhannes hafi ætlað að fara á bak við Samherja, hefja rekstur á öðru útgerðarfyrirtæki í Namibíu og nýta sér þau sambönd sem félög tengd Samherja höfðu byggt upp í landinu.
DV hefur borið fullyrðingar Samherja undir Jóhannes Stefánsson en ekki barst svar fyrir birtingu þessarar fréttar.