Þetta kemur fram í grein eftir þau sem birtist í Fréttablaðinu í dag. Í greininni reifa þau mismunandi sjónarhorn varðandi heimsfaraldurinn og þá hagsmuni, er varða lýðheilsu, sem vegast á. Þau benda á að sumum finnist aðgerðirnar of harðar en öðrum ekki nægilega harðar. Rætt hafi verið hvort fara eigi leið hjarðónæmis. Það er mat þríeykisins að fórnarkostnaður, ef sú leið verður farin, verði allt of hár. Það er því mat þeirra að best sé að halda aðgerðum áfram, til að halda veirunni í skefjum, með sem minnstri röskun á daglegu lífi þar til bóluefni kemur fram.
Þau benda einnig á að með því að þreyja þorrann þá aukist þekking okkar á meðferð og sjúkdómnum, þar á meðal langtímaáhrifum hans. Einnig sé hugsanlegt að veiran verði veikari með tímanum eins og gerðist í spænsku veikinni. Engin merki eru þó enn um að veiran sé að verða veikari.
Þau rekja síðan eitt og annað tengt fyrstu bylgju veirunnar hér á landi, skýra frá fjölda þeirra sem greindust með veiruna, sjúkrahúsinnlögnum og fjölda andláta. Einnig fjalla þau um þá sem glíma við langtímaáhrif veirunnar en ekki er vitað hversu stór sá hópur er eða hversu lengi einkennin muni vara.
Þau benda á að þegar faraldurinn skall á hafi verið samstaða um verja nauðsynlega innviði samfélagsins, þar á meðal heilbrigðiskerfi, og verja viðkvæma hópa.
Þau segja að til skamms tíma litið virðist langtímaáhrif sóttvarnaraðgerða hér á landi vera væg en áhrif slíkra aðgerða á lýðheilsu til lengri tíma séu ekki þekkt. Þau segja að ástæða sé til að óttast langtímaáhrifin ef ástandið dregst á langinn.
Þau fjalla síðan um leiðina að hjarðónæmi og segja að smitstuðull veirunnar sé talinn vera 2,5-6. Ef hann sé 2,5 þurfi 60% þjóðarinnar að smitast til að hjarðónæmi náist. Ef stuðullinn sé 6 þá þurfi 83% að smitast.
Ef 60% þjóðarinnar smitast, það eru 219.000 manns, gæti þurft að leggja 7.000 manns inn á sjúkrahús, 1.750 gætu þurft að leggjast inn á gjörgæsludeild og 660 gætu látist ef miðað er við hlutfallstölur úr fyrstu bylgju.
„Ef veiran fengi að ganga nokkuð óáreitt er augljóst að heilbrigðiskerfið myndi engan veginn ráða við fjöldann og að þessar tölur yrðu mun hærri. Í nýju, finnsku spálíkani er gert ráð fyrir 88 þúsundum smita næstu tvo og hálfan mánuð hérlendis, ef engar sóttvarnaraðgerðir væru í gangi og myndu allt að 3.000 einstaklingar greinast daglega seinni hluta nóvember,“
segja þau og benda á að þetta þurfi að hafa í huga þegar ákvarðanir verða teknar um sóttvarnarráðstafanir á næstu mánuðum.
„ Auk áhrifa á heilbrigðisþjónustu vegna COVID-19 yrði ekki hægt að halda uppi heilbrigðisþjónustu vegna annarra sjúkdóma. Besta leiðin til að geta veitt þá heilbrigðisþjónustu sem landsmenn þurfa er að halda smiti niðri í samfélaginu. Enn fremur myndi leið hjarðónæmis valda miklum usla í samfélaginu almennt; erfitt yrði að tryggja nauðsynlega innviði og þjónustu ef stór hluti landsmanna væri veikur,“
segja þau einnig.
Þau rekja síðan eitt og annað tengt hinni svonefndu Great Barrington yfirlýsingu og víkja síðan að þeim aðgerðum sem þau telja skynsamlegar:
„Við þurfum að prófa okkur áfram og reyna að finna meðalveg, að halda smitum niðri með sem minnstri röskun á daglegt líf. Það er verkefni sem við megum ekki gefast upp á meðan við bíðum eftir bóluefni, en samvinna vísindamanna um allan heim gefur tilefni til bjartsýni um að sú stund renni upp. Nauðsynlegt er að áfram sé unnið samkvæmt bestu þekkingu og reynslu. Áfram þarf að leggja áherslu á: 1. Einstaklingsbundnar sóttvarnir; nándartakmörk, handhreinsun, grímunotkun, sótthreinsun snertiflata og að vera heima/ sækjast eftir sýnatöku við einkenni sem samræmast COVID-19. 2. Vernd þeirra sem tilheyra áhættuhópum. 3. Vandaða og samræmda upplýsingamiðlun. 4. Snörp viðbrögð þegar upp koma smit; snemmgreiningu, einangrun, smitrakningu og sóttkví ásamt sem minnst íþyngjandi, staðbundnum aðgerðum eins og þarf.“
Í lokin hvetja þau þjóðina síðan til samstöðu:
„Mikilvægt er að þjóðin standi áfram saman, þá mun okkur farnast best. Í ákalli um samstöðu felst þó ekki krafa um gagnrýnislausa umræðu, þvert á móti er mikilvægt að mismunandi sjónarmiðum sé velt upp þegar um er að ræða takmarkanir á borgaralegum réttindum. Bannfæring gagnrýnisradda er aðeins til þess fallin að sundra þeirri dýrmætu einingu sem við þörfnumst á þessum einstæðu og erfiðu tímum. Það er okkar bjargfasta skoðun að yfirvegun og samstaða er besta sóttvörnin.“