Rocio Berta Calvi Lozano, bólivísk kona sem sökuð er um ævintýraleg fjársvik gagnvart tveimur heilabiluðum íslenskum systrum, segist hafa átt í djúpu vináttusambandi við aðra systurina en fjölskylda systurinnar hafi komið illa fram við sig og reynt að stía þeim sundur.
Þetta kemur fram í frétt á RÚV sem hefur undir höndum greinargerð verjanda systurinnar en fyrirtaka var í málinu við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 30. september síðastliðinn.
Í greinargerð sinni hafnar Rocio, sem er fædd árið 1967 og gift íslenskum manni fæddum sama ár og er hann líka ákærður í málinu fyrir samsekt, öllum ásökunum í ákærunni. Segir í greinargerðinni að það hafi verið val eldri systurinnar að umgangast hana. Hafi hún viljað endurgjalda Rocio fyrir ást og umhyggju með því að arfleiða hana að eigum sínum. Rocio segir eldri systurina hafa verið numda á brott af heimili sínu fyrir þremur árum og svipta frelsi sínu af fjarskyldum ættingjum sem hafi flutt hana nauðuga á bráðadeild. Segist hún jafnframt hafa ráðstafað fjármunum hennar með vitund og vilja systurinnar. Það hafi ekki verið hlutverk ættingjanna að ákvarða hvernig systurnar ráðstöfuðu fé sínu heldur þeirra sjálfra.
Rocio er sökuð um að hafa notfært sér andlegt ástand heilabilaðra, aldraðra systra og fengið þær til að skrifa undir erfðaskrá þar sem hún var arfleidd að nær öllum eigum þeirra. Ennfremur er hún sökuð um ævintýralega eyðslu á greiðslukorti sem tengt var við bankareikning annarrar systurinnar en ákæran er 52 blaðsíður. Er hún sögð hafa á fimm ára tímabili, frá 2012 til 2017, notað greiðslukortið alls 2166 sinnum.
Hér fyrir neðan má sjá lítinn hluta af þessum kortafærslum:
Heildarupphæð úttekta af debetkortinu er sögð vera yfir 50 milljónir króna.
Rocio er einnig sökuð um að hafa stolið ýmsum munum af heimili annarrar systurinnar, meðal annars hnífapörum, dúkum, styttum og stokkabelti fyrir gullhúðaðan upphlut sem er metinn á 1,8 milljónir króna.