Fram kemur að á fyrstu tveimur vikunum, eftir að tilkynnt var um samkomubann í vor, hafi rúmlega 500 skráð sig. Í byrjun apríl voru skráningarnar orðnar rúmlega 1.000 og í lok apríl voru þær orðnar 1.159.
Ákveðið var að endurvekja bakvarðasveitina í september þegar hin svonefnda þriðja bylgja COVID-19 hófst. Ákveðið var að byrja á núlli og óska eftir nýskráningu. Fyrir þessu voru tvær ástæður, aðstæður þeirra sem höfðu skráð sig höfðu breyst og heilbrigðisstofnanir óskuðu eftir breytingu á atriðum við skráningarnar til að einfalda ráðningar.
Frá því að bakvarðasveitin var aftur sett á laggirnar þann 21. september og þar til í gær höfðu 297 skráð sig. Sama hlutfallslega fækkun hefur orðið í öllum hópum. Í vor skráðu 275 hjúkrunarfræðingar sig en eru 55 nú. Læknar voru 107 í vor en eru 35 nú og sjúkraflutningamenn eru 40 núna en voru 102 í vor. 63 sjúkraliðar hafa skráð sig núna en voru 238 í vor.