fbpx
Mánudagur 13.janúar 2025
Fréttir

Dularfullu bremsuljósin við húsbílabrunann enn óupplýst – Sjáðu tímalínu málsins og kort af svæðinu

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 13. október 2020 11:04

mynd/samsett map.is/Heimir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enn hefur lögregla ekki útilokað neitt í rannsókn sinni á eldsvoða í húsbíl í Grafningi við bakka Sogsins á föstudagskvöldið. Málið hefur vakið talsverðan óhug síðan lögregla tilkynnti á laugardagskvöldið að maður hafi farist í brunanum. Seinna kom svo í ljós að tveir hundar mannsins hafi brunnið inni með manninum og að símtal vitnis í neyðarlínu sem kvaðst hafa séð eldsvoðann og bremsuljós í námunda við eldinn náði ekki í gegn til lögreglu. Hér að neðan er tímalína málsins rakin, yfirlitskort af svæðinu birt og mynd sem sýnir sjónlínu milli sumarbústaða og Torfastaða birt.

DV birtir hér tímalínu málsins:

Seint á föstudagskvöld barst neyðarlínu símtal frá vitni sem kvaðst hafa séð logandi eld hinum megin við Sogið frá sér og bremsuljós bíls við eldinn. Vitnið var þá statt í sumarbústað í Grímsnesinu í talsverðri fjarlægð frá eldsvoðanum. Þó var veður og skyggni með eindæmum gott á föstudagskvöld. Vegna hönnunargalla í tölvukerfi Neyðarlínunnar skilaði símtalið sér ekki.

Á laugardaginn klukkan 13:30 barst tilkynning til lögreglu um „mikið brunnin húsbíl í landi Torfastaða í Grafningi.“ Taldi tilkynnandi mögulegt að maður hafi getað verið inni í bílnum. Rúmur hálfur sólarhringur var þá liðinn frá tilkynningunni sem aldrei barst lögreglu.

Seinna á laugardag, klukkan 22:23 birti lögreglan svo tilkynningu á vefsíðu sinni um að við rannsókn á húsbílabrunanum hafi fundist líkamsleifar manns á fertugsaldri. Seinna var það gert opinbert að maðurinn hafi búið í bílnum í nokkur ár bæði á Suðurlandi og í Reykjavík. Þá fundust hræ tveggja hunda mannsins í bílnum.

Á mánudagsmorgun birti Morgunblaðið svo á forsíðu sinni frétt um símtalið sem aldrei skilaði sér. Kom þá einnig í ljós í fyrsta skipti opinberlega að bremsuljós hafi sést á svæðinu er eldurinn logaði. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins er ekki mögulegt að bremsuljósin hafi verið af húsbílnum, enda snéri hann í átt að vitninu sem sá bremsuljósin. Auglýsti lögreglan eftir fleiri vitnum sem gætu varpað ljósi á málið.

Í fréttatíma RUV á mánudagskvöldið sagði Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á Suðurlandi, að rannsókn málsins væri hafin og að tugur vitna hafi stigið fram.

Seinna á mánudagskvöldið tilkynnti svo Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri að búið væri að laga gallann á hugbúnaði neyðarlínunnar. Vottaði hún við það tækifæri aðstandendum hins látna samúð sína og sagði málið allt hið sorglegasta.

Rannsókn í fullum gangi og enn ekkert útilokað

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn sagði í samtali við DV í morgun að ekkert hafi verið útilokað enn og að nú sé unnið að skráningu upplýsinga sem fram hafa komið í samtölum við þau vitni sem stigið hafa fram. Þannig sé í raun engin breyting síðan í gær. „Málið er í rannsókn og í sjálfu sér engu við það að bæta,“ sagði Oddur. Beðið er eftir niðurstöðu úr krufningu, en slíkt getur tekið nokkrar vikur.

Aðspurður hvort fundur hundshræjanna hafi þýðingu í rannsókninni svarar Oddur því neitandi. „Það er ekkert sérstakt rannsóknarefni sem snýr að þeim, ekki nema í heildarmynd málsins auðvitað.“

Oddur vildi ekki svara því hvort verið sé að kanna mannaferðir á svæðinu á föstudagskvöldið, til dæmis með rakningu farsíma eða slíku. „Við gefum aldrei upp rannsóknaraðferðir eða upplýsingar um einstaka rannsóknarþætti máls,“ svaraði Oddur.

Komið hefur fram að lögregla viti hver sá látni er og hafa aðstandendur hans verið látnir vita. Þó hefur kennslanefnd ríkislögreglustjóra verið virkjuð og mun hún staðfesta kennsl mannsins.

Hér að neðan má sjá kort af svæðinu og yfirlitsmynd tekna af landi Torfastaða yfir Sogið og að sumarbústöðum þaðan sem upphaflega tilkynningin barst. Á kortinu er land Torfastaða skyggt blátt, og sumarbústaðaland hinum megin Sogsins rauðskyggt. Innan rauða svæðisins eru samkvæmt óformlegri talningu blaðamanns, um 100 bústaðir sem gætu hafa séð eld, eldtungur eða reyk frá brunanum.

Bláskyggða svæðið er af landi Torfastaða, en bíllinn stóð ofarlega á landi þeirra. Rauðskyggða svæðið er sumarbústaðalandið hinum megin við Sogið, en þaðan barst tilkynningin sem ekki náði í gegn til lögreglu á föstudagskvöldið. mynd/skjáskot map.is
Mynd tekin af landi Torfastaða yfir Sogið og að sumarbústaðasvæði þaðan sem upphaflega tilkynningin til Neyðarlínunnar barst, sem ekki náði í gegn til lögreglu. mynd/Heimir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna

Trump sagður leita logandi ljósi að sjúkdómi til að réttlæta lokun landamæranna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja

Samgöngustofa og 66°Norður vekja athygli á mikilvægi endurskinsmerkja