Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Haft er eftir Einari Gestssyni, náttúruvásérfræðingi hjá Veðurstofunni, að tilgangurinn með hækkuðu viðbúnaðarstigi sé að upplýsa fluggeirann um að virkni sé meiri en venjulega í eldstöðinni og að breytingar geti verið í aðsigi. Það er þó ekki bannað að fljúga yfir Grímsvötn.
Þegar litakóðinn var hækkaður í lok september voru mælingar að nálgast þau gildi sem sáust fyrir gosið 2011 í Grímsvötnum. Af þeim sökum er búist við jökulhlaupi. Eldgos fylgja stundum í kjölfar hlaupa en þau geta líka hafist án þess að jökulhlaup komi fyrst.
Í gosinu 2011 fór öskustrókurinn fljótt í rúmlega 20 km hæð og stöðvaðist flugumferð um Keflavíkurflugvöll og aðra flugvelli hér á landi í einn til tvo daga.