Núna þegar sóttvarnaaðgerðir hérlendis hafa verið hertar er verið að slaka á höft-um í Svíþjóð. Svíar fóru talsvert aðra og mildari leið í sóttvörnum en Íslendingar. Sé hlutfall látinna í Svíþjóð yfirfært á Ísland myndi það samsvara 207 dauðsföllum hérlendis af völdum veirunnar.
Kórónaveiran hefur lagt undir sig heiminn, ef svo má að orði komast. Ísland vakti athygli í upphaf i faraldursins fyrir ákveðin og hörð viðbrögð við faraldrinum og í byrjun sumars leit út fyrir að „íslensku viðbrögðin“ hefðu sigrað faraldurinn og Ísland varð eins konar fyrirmyndarríki í augum annarra þjóða sem enn glímdu við vágestinn COVID-19.
Svíþjóð vakti sömuleiðis athygli fyrir sín viðbrögð. Þau voru mun vægari en víðast hvar í heiminum. Afslöppuð nálgun með tilheyrandi dánartíðni vakti óhug þegar tölur fóru að berast frá Svíþjóð yfir fjölda þeirra sem höfðu látið lífið vegna kórónuveirunnar. Í kjölfarið voru sænsk yfirvöld harðlega gagnrýnd.
Síðan leið sumarið. Aftur glímir heimurinn við veiruna í því sem hefur verið nefnt önnur, og jafnvel þriðja, bylgja faraldursins.
Annað er þó upp á teningunum í Svíþjóð. Þar er nú verið að slaka á sóttvarnaaðgerðum og ekkert bólar á annarri bylgjunni. Þetta hefur vakið mikla athygli. Var sænska leiðin kannski rétta leiðin eftir allt saman? DV hafði samband við Íslending sem býr í Svíþjóð og hefur fylgst vel með þróun mála. Viðkomandi vill ekki koma fram undir nafni.
Kórónaveiran er talin hafa borist til Svíþjóðar í lok janúar þegar sænsk kona sneri til baka úr ferðalagi til Wuhan í Kína, en kórónaveiran er talin eiga uppruna sinn á því svæði. Konan greindist jákvæð fyrir veirunni við komuna til landsins en ekki er talið að hún hafi valdið frekara smiti. Hins vegar hófst samfélagssmit ekki fyrr en nokkru síðar þegar fjöldi Svía sneri til baka úr ferðalögum, meðal annars til skíðasvæða í Ölpunum, en þangað hefur gífurlegur fjöldi tilfella verið rakinn, bæði á Íslandi sem og í Svíþjóð
„Þetta brast á í Svíþjóð í lok mars/apríl í vor þegar tugþúsundir Svía komu til baka úr skíðaferðalögum. Við erum ekki að tala um einhverja tugi manna sem voru að koma frá Austurríki eins og með flugi Icelandair til Keflavíkur. Við erum að tala um tugi þúsunda sem voru að koma til baka, en Svíar fara mikið á skíði,“ segir viðmælandinn.
Síðan þá hafa tæplega hundrað þúsund Svíar greinst með kórónaveiruna og tæplega sex þúsund látist. Flest voru dauðsföllin í vor og upphafi sumars, eða fljótlega eftir að faraldurinn skall á Svíum af fullum þunga. „Þess vegna byrjaði þetta með svo miklum látum hér. Þess vegna varð svona alvarlegt og almennt smit strax í upphafi. Miðað við þessar aðstæður þá voru varnir á til dæmis heimilum eldri borgara, öldrunarheimilum, dvalarheimilum, svo litlar. Þess vegna varð svo mikið mannfall í upphafi. Smitið var svo almennt, menn áttuðu sig ekki á hvað var að gerast og þetta gerðist svo hratt.“
Svíar fóru aðra leið en Íslendingar þegar kom að því að marka stefnu og setja á takmarkanir vegna veirunnar. Svíþjóð hefur þá sérstöðu að lögum samkvæmt eru það heilbrigðisyfirvöld sem leggja línurnar og marka stefnu í gegnum faraldurinn og stjórnmálamenn hafa mun minni afskipti af aðgerðum heldur en víða annars staðar í heiminum
Eins hefur í Svíþjóð fremur verið farin sú leið að beina leiðbeiningum og tilmælum til íbúa, frekar en að binda sóttvarnaráðstafanir í lög og reglur enda þykir það brjóta gegn stjórnarskrá landsins að setja lög sem eigi að hefta frelsi íbúa til ferðalaga og athafna.
„Svíar eru agaðir. Þeir fylgja reglum. Reglur um fjarlægðartakmarkanir eru virtar og fólk fer eftir því. Hefðbundnir skemmtistaðir eru ekki opnir. Leikhús eru lokuð – eða voru það. Nú er verið að rýmka reglur um sviðslistir og íþróttir. Það á að heimila í auknum mæli að hleypa fólki inn í leikhúsin og á íþróttaleiki – þó með ströngum skilyrðum.“
Hann segir að Svíar hafi farið í mjög stöðugar aðgerðir sem hafi haldist nánast óbreyttar allt frá því í byrjun apríl.
„Þessar stöðugu, markvissu og ákveðnu sóttvarnaaðgerðir. Þær hafa skilað árangri. Landinu var aldrei lokað og okkur voru settar ákveðnar meginreglur sem var svo farið eftir.“ Viðmælandi DV segir þetta töluvert ólíkt þeim aðgerðum sem farið var í á Íslandi þar sem harðar takmarkanir voru settar á landamærin, þeim aflétt og svo komið á aftur, eða samkomutakmarkanir sem voru settar á, hertar, slakað á og teknar af til skiptis allt frá því í mars. Slíkt skapi óvissu og þreytu. Svíar finni minna fyrir hinni svonefndu farsóttarþreytu þar sem aðgerðirnar hafi verið markvissar og stöðugar og nokkuð fyrirsjáanlegar.
„Ég held að Svíum hafi tekist að halda þessu í skefjum með innanlandsaga og með því að fylgja þeim reglum sem voru settar. Ég held að það hafi borið árangur líka að vera ekki að hlaupa fram og til baka með nýjar reglur í hina og þessa áttina. Það voru bara settar takmarkanir í reglur og þær hafa verið í gildi allt þar til núna.“
Landamæri Svíþjóðar hafa verið opin í gegnum faraldurinn og ferðamenn áfram boðnir velkomnir.
„Það er ekki skimun við komu og ekki krafa um sóttkví. Ef Íslendingur er að koma frá Keflavík til Stokkhólms þá er hann ekki krafinn um vottorð eða skimunarstaðfestingar. Hann bara kemur hingað inn eins og hver annar ferðamaður.“
Sóttvarnalæknir, Anders Tegnell, hefur dregið í efa gagnsemi harkalegra aðgerða á borð við útgöngubann eða lokun landamæra og engar rannsóknir bendi til þess að slíkar aðgerðir séu gagnlegar í baráttunni við veiruna. Þvert á móti sé það ljóst af sögulegu samhengi að lokun landamæra sé með öllu tilgangslaus. Í besta falli gæti það tafið faraldurinn í eina viku auk þess sem slík lokun færi gegn ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar.
Viðmælandi DV segir að þótt Svíar ferðist minna innanlands sé það ekki svo að ekkert líf sé í Svíþjóð. „Það má segja að þetta hafi bitnað á ferðaþjónustu innanlands. Menn eru ekki mikið að fara í lestarferðir út á land, í innanlandsflug eða annað. En hins vegar er ekki mikil lokun í gangi. Hótel eru enn með opið og það er líf í samfélaginu. Það er ekki alkul og Svíþjóð er opið land og það flæðir fólk hingað inn. Svíar eru að ferðast sjálfir til að mynda til Kanaríeyja og svona.
Grímunotkun er ekki almenn hér. Það er mælst til þess að þær séu nýttar í almenningssamgöngum eða þar sem fólk er þétt saman. En þú sérð ekki grímur á götum úti, eða í verslunum. Sóttvarnalæknir hefur sagt að fyrir því séu nokkrar ástæður. Það þýði ekki að segja ákveðnum hluta þjóðarinnar að nota grímur en sleppa öðrum – það eigi jafnt yfir alla að ganga – og eins geti menn sett grímurnar vitlaust á sig og með því skapað falskt öryggi sem er hættulegt.“
Misskilnings gætir oft í umræðunni um viðbrögð Svíþjóðar við kórónaveirufaraldrinum. Sumir virðast halda að til engra aðgerða hafi verið gripið og markmiðið sé að ná fram hjarðónæmi. Sóttvarnalæknir Svíþjóðar, Anders Tegnell, hefur hafnað þeim ásökunum. Hafi hjarðónæmi verið markmiðið þá hafi ekkert verið gert til að spyrna á móti faraldrinum.
Hins vegar telur hann ekki raunhæft að miða allar aðgerðir og stefnumótun að mögulegu bóluefni en alls kostar óvíst sé hvenær slíkt bóluefni verði tilbúið til dreifingar. Að hans mati er veiran komin til að vera hér næstu árin og þurfi því að miða aðgerðir að þeim raunveruleika og læra að lifa með henni
Helst er sænskum yfirvöldum umhugað um áhættuhópa. En þau hafa viðurkennt að þeim hafi til að byrja með mistekist að vernda þá hópa með fullnægjandi hætti
Mikill meirihluti þeirra sem látist hafa í Svíþjóð af völdum veirunnar voru íbúar á öldrunarheimilum eða einstaklingar sem nutu umönnunar í heimahúsum. Tegnell hefur sagt að ef hann gæti breytt einhverju í viðbrögðum Svíþjóðar við veirunni þá væri það að hlúa betur að áhættuhópum við upphaf faraldursins.
Íslenski viðmælandi DV í Svíþjóð segir að hann hafi tekið eftir gagnrýni á yfirvöld við upphaf faraldursins enda gekk veiran hratt fyrir landið og gífurlega margir létust. Hins vegar hafi umræðan undanfarið verið á aðra leið. Ánægja sé með þær markvissu og íhaldssömu aðgerðir sem hafi verið ráðist í enda megi sjá það nú á stöðunni. Smitstuðull hafi lækkað mikið, smituðum hafi fækkað sem og þeim sem þurfi að leggjast inn á gjörgæslu.
„Það hafa ekki orðið marktækar breytingar á þessu smitgengi síðustu vikunnar. Menn héldu að þetta færi aftur af stað í haust þegar skólarnir byrjuðu aftur og annað. En það hefur ekki orðið enn. Þetta er öðruvísi ferill á útbreiðslunni en eins og í til dæmis Danmörku og Noregi. Þannig að menn eru að velta fyrir sér hverjar séu mögulegar ástæður og það eru ýmsar skoðanir á því.“
Hann segir eðlilegt að margir horfi nú til Svíþjóðar og velti fyrir sér hvort sænska leiðin hafi kannski ekki verið jafn galin og menn héldu í upphafi.
„Það er að beinast ákveðið sviðsljós að Svíþjóð. Menn eru að velta fyrir sér hvaða aðgerða við höfum gripið til og hvort hægt sé að læra eitthvað af þeim. Eins hvort hægt sé að líta á Svía sem einhverja fyrirmynd núna.“
Viðmælandinn telur fulla ástæðu til að líta til Svíþjóðar og þeirrar stefnu sem hefur verið tekin þar. Segist hann geta rétt ímyndað sér þá þreytu sem Íslendingar hljóti að finna fyrir þegar nýjar aðgerðir eru boðaðar svo til vikulega án skýrrar stefnu til frambúðar. Það hljóti að skapa vissa undiröldu. Núna sé ástandið gott í Svíþjóð
„Ástandið hér er nokkuð gott og ég verð bara að segja að mér líður vel hér og er nokkuð afslappaður.“
Það er áhugavert að bera saman íslensku og sænsku leiðina. Þeirri íslensku var í upphafi fagnað en svo hallaði hratt undan fæti í sumar og mörg önnur ríki í heiminum eru nú búin að skrá fyrrverandi fyrirmyndarríkið Ísland á rauðan lista
Svíþjóð sem var gagnrýnd í upphafi fyrir alltof mikla afslöppun virðist nú ætla að verða næsta fyrirmyndarríki.
Hins vegar, bendir viðmælandinn á, er ekki búið að gera upp faraldurinn og hann er langt frá því að heyra fortíðinni til. Tíminn einn muni því leiða í ljós hvaða leið hafi í reynd verið best. Til að komast að því þurfi heimurinn fyrst að komast í gegnum COVID. Og sá tími er enn ekki runninn upp og mun líklega ekki gera það neitt á næstunni.