Alþingismennirnir Brynjar Níelsson og Helga Vala Helgadóttir tókust á í Silfrinu í morgun og var umræðuefnið ráðstafanir yfirvalda vegna kórónuveirufaraldursins sem nú gengur yfir. Það vakti furðu margra þegar þessir tveir þingmenn virtust í meginatriðum sammála um veigamikið atriði í umræðunni: Aðkoma Alþingis að takmarkandi aðgerðum hins opinbera.
Brynjar sagðist hafa verið að vekja athygli á því í vikunni, að aðgerðir til að sporna við útbreiðslu kórónuveirunnar kynnu að valda meiri skaða en sjálfur faraldurinn og að svo viðamiklar takmarkanir á stjórnarskrárvörðum réttindum almennings yrði að fara fram á vettvangi Alþingis. Undir þetta síðastnefnda tók Helga Vala. Hafði Helga meira að segja orð á því að það væri jafnvel vandræðalegt hve sammála þessir fornu féndur úr pólitíkinni væru um málið. Helga Vala tók undir það að mannréttindi væru mikilvæg og að umræða um takmarkandi aðgerðir kæmu í litlum mæli inná vettvang Alþingis: „Það vantar þessa umræði inná okkar vinnustað. Umræðu um þessar aðgerðir sem verið er að fara í.“
Brynjar stiklaði á viðbrögðum sínum við orðum læknastéttarinnar um hann og hans boðskap í vikunni: „Við getum ekki sagt að borgaraleg réttindi séu bara eitthvað akademískt dæmi sem má hvíla í smá stund. Það kostaði blóð svita og tár að fá þessi réttindi. Auðvitað geta menn verið ósammála því, en ég er bara ekki þar. Ég tel það mitt hlutverk að benda á þessa hluti.“
Helga sagði þá að reglurnar um Covid væru komnar á reik. Það hefðu þær gert um svipað leyti og myndir af ráðherranum Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur í vinkvennahópi birtust á samfélagsmiðlum. Sagði Helga að það hjálpaði svo ekki til þegar ólíkar reglur væru farnar að gilda um ólík póstnúmer. Vék þá Helga að golfhring Þorgerðar Katrínar sem komst í fréttir í gærkvöldi. Hafði þá golfsambandið beint því til golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu að loka sínum völlum og að kylfingar á höfuðborginni léti það vera að ferðast út fyrir höfuðborgina í leit að golfskammtinum sínum. Í gær sást svo til Þorgerðar á golfvellinum í Hveragerði, þar sem hún er fastagestur og hefur verið í mörg ár. Þorgerður er í stjórn Golfsambands Íslands, sem sendi tilmælin út.
Tók hún golfferðina og minni samstöðu um reglurnar sem dæmi um pirring sem farið væri að gæta í samfélaginu. Hún sagði að horfa hefði átt á áhrif faraldursins og viðbragða við honum á geðheilsu landans frá upphafi. Enn tóku þau undir með hvoru öðru og benti Brynjar á að hin eilífa baunatalning yfirvalda um hvað margir geta dáið geti ekki og megi ekki vera eina viðmið um hversu langt eigi að ganga í viðbrögðunum. Brynjar benti jafnframt á að sömu rök og nú eru lögð til grundvallar harðra og mjög takmarkandi aðgerða gegn Covid-19 mætti leggja fyrir á hverju ári, ef viðmiðið er alltaf hversu margir munu deyja. Helga Vala vildi ekki ganga svo langt. Virtist í smá stund ætla að sjóða uppúr á milli þeirra, eins og von var á, en spyrill þáttarins virðist hafa náð að hrífa pottlokið af í tæka tíð.
Þá spurði Fanney Brynjar Níelsson hver viðbrögð þingflokks síns væru við orðum hans og skoðunum, en hann og Sigríður Andersen hafa verið hvað háværust í þessum málum. Svaraði Brynjar að hann og „Sigga“ væru einfaldlega gjarnan afgreidd sem einhverjir Trumpistar og rugludallar, en enginn virtist vilja taka umræðuna.