56 ára gamall maður hefur verið dæmdur í 5 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa haft í fórum sínum, í sölu- og dreifingarskyni, nokkurt magn af amfetamíni, hassi, maríhúana, stungulyfinu Deca-Durabolin, mikið magn af sterum og ýmsum öðrum fíkniefnum.
Einnig var maðurinn með tvo 22 calibera riffla, loftbyssur, stóran hníf og fleiri vopn.
Maðurinn játaði brot sín skýlaust en hann er með hreinan sakaferil. Óvenjulegt er að svo gamall maður fremji fyrsta brot sitt af þessu tagi en samanlagt var mikið magn af fíkniefnum og vopnum í fórum hans. Minnir brotið fremur á atferli síbrotamanns eða ungs afbrotamanns.
Fíkniefni og vopn í fórum mannsins voru gerð upptæk og hann var dæmdur til að greiða verjanda sínum málsvarnarlaun, sem og sakarkostnað, er þetta samtals rúmlega 350. 000 krónur. Sem fyrr segir þarf maðurinn ekki að sitja í fangelsi því fimm mánaða dómur hans er skilorðsbundinn.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 7. október.