Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu braut gegn persónuverndarlögum þegar Hörður Jóhannesson, sem var aðstoðarlögreglustjóri árið 2012, veitti Jóni Baldvini Hannibalssyni aðgang að gögnum sem vörðuð dóttur hans, Aldísi Schram. Mbl.is greinir frá.
Hörður veitti Jóni Baldvini aðgang að persónuupplýsingum um Aldísi í skjali sem bar yfirskriftina „Til þess er málið varðar“. Í þessu skjali mátti meðal annars fyrra upplýsingar um að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi nokkru sinnum þurft að hafa afskipti af Aldísi fyrir tilstuðlan foreldra hennar, Jóns Baldvins og Bryndísar Schram.
Jón Baldvin framvísaði ofangreindu skjali í þætti Egils Helgasonar, Silfrið, í febrúar á síðasta ári og birti í kjölfarið í grein í Morgunblaðinu. Aldís Schram kvartaði þá til persónuverndar vegna vinnslu embættis lögreglustjóra á persónuupplýsingum hennar.
Í Kvörtun Aldísar segir að hún hafi verið beitt þvingaðri lyfjagjöf vegna meints þunglyndis og vistuð á geðdeild í tvo mánuði að beiðni Jóns Baldvins. Jón Baldvin var á þeim tíma sendiherra. Jón Baldvin mun hafa fengið Hauk Guðmundsson, þáverandi ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytisins til að skrifa upp á beiðni um að Aldís yrði nauðungarvistuð.
Aldís segir jafnframt í kvörtun að fimm sinnum hafi hún mátt sæta handtöku af hálfu lögreglunnar en þrjár þeirra hafi verið óskráðar í kerfum lögreglunnar. Eins var handtaka sem lögmaður Aldísar afstýrði skráð sem „aðstoð við erlend sendiráð“ í kerfum lögreglunnar, en Jón Baldvin var þá sendiherra á Spáni.
Í svari embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu vegna kvörtunar Aldísar kemur fram að umræddar upplýsingar sem Jóni Baldvin voru veittar hafi ekki verið varðveittar í skjalavörslukerfi embættisins og embættið hafi því ekki upplýsingar um forsendur afgreiðslunnar og geti því ekki tekið afstöðu til kvörtunarinnar.
Persónuvernd rekur að embætti lögreglustjóra hafi verið ábyrgðaraðili að vinnslu persónuupplýsinganna og umræddar upplýsingar hafi verið viðkvæms eðlis.
Persónuvernd rekur að embætti lögreglustjóra geti ekki skýrt í hvaða tilgangi upplýsingarnar voru veittar og hvers vegna. Einstaklingar eigi almennt að geta treyst því að upplýsingar sem lögregla skráir um verkefni sem hún sinnir vegna þeirra verði ekki miðlað til óviðkomandi aðila.
„Þar sem [embætti lögreglustjóra] hafi miðlað umræddum upplýsingum um kvartanda án heimildar hafi embættið ekki unnið með upplýsingarnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti“