„Myrkur leikur um lífsýni og gögn sem aflað er í faraldrinum, enginn veit hvert þau fara, á grundvelli hvaða heimilda þeirra er aflað, til hvers þau verða notuð og þau virðast hvorki afturkallanleg né notkun þeirra kæranleg. Stjórnvöld og rannsóknarstofnanir eru í Villta Vestrinu,“ segir Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur í nýrri grein á Vísir.is.
Í greininni er óheftur aðgangur ÍE að lífsýnum í gegnum skimanir fyrir COVID-19 gagnrýndur og þá umfram allt leynd sem hvíli yfir meðferð gagnanna. Hvert fara lífsýnin okkar? spyr Haukur og segir:
„DeCode – sem þjóðin hafnaði að gefa lífssýni fyrir nokkrum misserum – safnar nú lífsýnum þjóðarinnar sem aldrei fyrr. Fyrirtækið er í eigu Amgen líftæknifyrirtækisins í Kaliforníu, sem segist nota getu og uppgötvanir DeCode til eigin rannsókna og lyfjaframleiðslu. Við erum líklega að gefa bandarísku stórfyrirtæki dýrmætustu upplýsingar um okkur sem við getum gefið um þessar mundir. Fyrr eða síðar getur það kallað til sín eignir sínar á Íslandi og flutt starfsemina milli landa.“
Haukur segir að þær skimanir sem ÍE er að framkvæma núna séu gerðar án samþykkis vísindasiðanefndar og þær virðist undanþegnar almennum skilyrðum stjórnvalda fyrir vinnslunni. Óttast Haukur að ÍE hafi frítt spil varðandi meðferð á lífsýnunum.
Haukur telur ljóst að skimanirnar muni standa yfir í langan tíma en enginn viti hvað lífsýnin verða varðveitt lengi eða til hvaða hluta þau verði notuð. „Lífsýni eru dýrmætasta eign okkar nú á dögum og má nota þau í margháttuðum tilgangi á markaði, við kúganir, í stjórnmálum og opinberu lífi – og til flokkunar þjóðfélagsþegnanna af öllu tagi. Annars er það bara hugmyndaflugið sem takmarkar notkunarmöguleika lífsýna í dag,“ segir Haukur.
Í upplýsingatækni sé gögnum aldrei eytt, ávallt reyni þeir sem hafa þau undir höndum að hagnýta sér þau eins mikið og kostur er.
„Það segir sig sjálft að myrkur leikur um þessa vinnslu, almenningi er ekki sagt hvað verði um lífsýnin eða veittar allar upplýsingar um hvert þau fara, til hvers þau verða notuð o.s.frv. og þá ekki um rétt sinn,“ segir Haukur.
Haukur telur að kórónuveirufaraldurinn muni standa í tvö til tvö og hálft ár. Hann spyr hvort réttlætanlegrt sé að leggja grundvallarmannréttindi fólks til hliðar í svo langan tíma, jafnvel þó að verið sé að glíma við illvígan faraldur. Hann spyr hvort viðbrögðin séu hættulegri en tilefnið.