Líkt og Fréttablaðið og DV sögðu frá í dag gætir titrings í efstu lögum stjórnkerfisins með reglugerð Svandísar Svavarsdóttur. Snýr gremjan meðal annars að því að lítið ef nokkuð samráð var haft við ríkisstjórn vegna málsins og að misræmis virðist gæta í útfærslu ráðuneytisins, minnisblaðs Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og svo tilmæla ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis.
Ósamræmið virðist nú vera að hafa talsvert meiri áhrif í samfélaginu en ætla mætti. Í minnisblaðinu er þess til dæmis getið að keppnisstarfi í íþróttum verði frestað um tvær vikur. Kom þá sama dag í fjölmiðlum í ljós sjónarmið sóttvarnalæknis að hann teldi réttast að stöðva íþróttastarf hjá börnum næstu tvær vikurnar, þó þess sé hvergi getið í minnisblaðinu. Segir á vef stjórnarráðsins í frétt um reglugerð ráðherra að „í minnisblaðinu hafi verið miðað við að engar hömlur yrðu á æskulýðsstarfi, íþróttum og tómstundum leik- og grunnskólabarna.“
Þá segir á vef stjórnarráðsins að ákveðið hafi verið að heimila íþróttaiðkun utandyra með þeim takmörkun sem leiða af gildandi sóttvarnareglum. Taldi ráðuneytið það mikilvægt að fólki yrði gert kleift að stunda hreyfingu utandyra og var afráðið að leggja ekki bann við alla heilsurækt og hreyfingu út frá lýðheilsusjónarmiðum.
Að lokum segir í frétt stjórnarráðsins um málið að ríkislögreglustjóri hyggst birta „almenn tilmæli,“ til fólks í Reykjavík sem ætlað yrði að „styðja við“ hertar sóttvarnaráðstafanir á höfuðborgarsvæðinu til að draga úr útbreiðslu faraldursins. Í þeim tilmælum var fólk beðið um að vera sem minnst á ferð utandyra, að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu að óþörfu og fólk beðið um að takmarka hópastarf, þar á meðal hlaupahópa. Þá voru íþróttafélög í höfuðborginni beðin um að fresta æfingum og keppnum sínum í tvær vikur.
Í reglugerð sem að mestu leyti, en ekki öllu, fylgir minnisblaði sóttvarnalæknis er til að mynda skýrt að skólastarfi grunnskóla skuli ekki raskað:
Grunnskólum er heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum með þeim skilyrðum að starfsfólk sem á erindi inn í skólabyggingar gæti að 1 metra nálægðartakmörkun sín á milli án þess að andlitsgrímur séu notaðar. Ekki skulu vera fleiri en 30 einstaklingar fæddir 2004 eða fyrr í hverju rými. Ekki gilda aðrar takmarkanir á samkomum barna á grunnskólaaldri.
Þar segir jafnframt að ofangreint ákvæði skuli einnig taka til frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs í grunnskólum.
Í kjölfar birtingar „tilmæla“ ríkislögreglustjóra og sóttvarnalæknis ákváðu margir skólar að fella niður íþróttastarf og skólasund, þrátt fyrir ákvæði í reglugerð ráðherra sem vitnað var til hér að ofan. Sömu sögu er að segja af íþróttafélögum sem mörg hver felldu niður æfingar skólabarna sem fædd eru 2004 eða síðar, þvert á reglugerð ráðherra.
Ljóst er að tilmæli ríkislögreglustjóra ganga þannig talsvert lengra en bæði minnisblað sóttvarnalæknis sem og reglugerð Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra og að misvísandi skilaboð tveggja anga yfirvalda hafa valdið misskilningi. Enn fremur hefur þessi tilhögun vakið upp spurningar um lögmæti aðgerða ríkislögreglustjóra. Þá hefur DV enn fremur heimildir fyrir því að urgur sé í mörgum foreldrahópum á Facebook með misvísandi skilaboð yfirvalda og sá misskilningur útbreiddur að í tilmælunum felist ný reglugerð og að fólk eigi erfitt með að greina í sundur tilmælin og reglugerð ráðherra. Reglugerð ráðherra er rétthærri en önnur tilmæli stjórnsýslunnar, og efast margir því um lögmæti „tilmælanna.“