Alls eru 780 reykvísk börn í sóttkví samkvæmt fyrirmælum sóttvarnalæknis eða smitrakningarteymis, þar af 148 leikskólabörn og 632 grunnskólabörn. Þar með eru 2,3% allra leikskólabarna í sóttkví og 4,11% allra grunnskólabarna.
Þetta kemur fram í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn DV.
Þá eru fimm leikskólabörn í Reykjavík og 33 grunnskólabörn með COVID-19. Þrír starfsmenn leikskóla borgarinnar eru smitaðir og tólf starfsmenn grunnskóla.
Mikil aukning hefur verið á greindum smitum undanfarna daga og heilu árgangarnir í hinum ýmsu grunnskólum í sóttkví. Í morgun var til að mynda tilkynnt að allt unglingastig Háteigsskóla væri komið í sóttkví eftir að smit kom upp í nemendahópnum.
COVID-19 hefur mikil áhrif á börn og ungmenni og við þeim blasir nýr veruleiki. Þegar fyrsta bylgjan geisaði í vor, skömmu eftir að samkomubann var sett á, óskaði umboðsmaður barna, í samstarfi við KrakkaRúv, eftir frásögnum barna og ungmenna af því hvernig það er að vera barn á tímum kórónaveirunnar og hvernig faraldurinn hefur haft áhrif á daglegt líf þeirra. Brot af þessum frásögnum er nú aðgengilegt á vef Umboðsmanns Barna.
Hér meðfylgjandi er myndband frá Almannavörnum um örugga grímunotkun.