Yfir 50 Íslendingar hafa skrifað nöfn sín undir alþjóðlegan undirskriftalista þar sem þess er krafist að yfirvöld hverfi frá hörðum sóttvarnaraðgerðum vegna kórónuveirunnar og stefni frekar að því að ná fram hjarðónæmi. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Þar kemur einnig fram að á meðal Íslendinganna sem skrifa undir eru augnlæknir, lýtalæknir og tannlæknir. Ennfremur er þar að finna þekkta menn úr viðskiptalífinu.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á upplýsingafundi dagsins að hann teldi ótrúlegt að til væru læknar sem teldu hjarðónæmi vera bestu leiðina. Ef faraldurinn myndi þrefaldast eða fjórfaldast hér á landi yrði heilbrigðiskerfið yfirkeyrt og útkoman yrði hræðileg. Benti Þórólfur ennfremur á að meint hjarðónæmi í Svíþjóð væri orðum aukið því aðeins tíu prósent hefðu myndað ónæmi á verstu svæðunum.